„Það þarf ansi mikið til að sjá breytingu í hamingjumælingu þjóða,“ segir Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis, en hún var ein þeirra sem héldu erindi um nýju lýðheilsuvísana sem kynntir voru í gær í Ráðhúsinu í Reykjavík. „Þegar ég fór fyrst að skoða þetta voru 85% fullorðinna 18 ára og eldri sem svöruðu á skalanum 8-10 og töldu sig mjög hamingjusöm.“ Þetta er úr frétt í Mogganum. „Þegar fólki líður verr hefur það slæm áhrif á þjóðfélagið og ekki eingöngu vegna þyngri brúnar. Dóra segir bresk yfirvöld hafa reiknað það út að eitt stig í hamingju jafngildi þrettán þúsund pundum á mann, eða rúmlega tveimur milljónum íslenskra króna, „sem eru háar tölur og sýna að við verðum að skoða þetta betur“.“
Hún segir að sem dæmi hafi hamingjustuðullinn ekki farið mikið niður í efnahagshruninu, en þá hafi til dæmis ungmenni komið betur út sem talið var tengjast betra sambandi við foreldrana. „Það gerðist hins vegar ekki í covid-faraldrinum, og það má segja að undanfarin ár hafi þessar tölur verið að lækka og í fyrra fór talan niður í 60% í fyrsta skipti og núna sjáum við að aðeins 55% fullorðinna telja sig mjög hamingjusöm.“