- Advertisement -

Íslandsmet í kasti heitra kartafla

„Það er auðvitað rannsóknarefni að bæði seðlabankastjóri og fjármálaráðherra séu svo uppteknir við að benda hvor á annan, á sama tíma og ekki má leita að sökudólgum, að þeir nái hvorugur að sjá hið raunverulega vandamál.“

„Það dylst engum þessa dagana að Íslandsmetið í að kasta heitri kartöflu á milli sín er í stórhættu. Við þekkjum þetta vel. Verðbólgan fer af stað og verður gjarnan hærri og þrálátri hér en í nágrannalöndunum. Sem viðbragð við henni fáum við Íslendingar reglulega stýrivaxtahækkanir sem enda gjarnan upp í rjáfri með þeim afleiðingum að heimilum og fyrirtækjum blæðir hressilega. Höggið sem við fáum núna er sérlega þungt. Hver ber ábyrgð? Það er heita kartaflan,“ sagði Sigmar Guðmundsson á Alþingi í gær.

„Fjármálaráðherra og seðlabankastjóri hafa nú sameinast um að kenna nýgerðum kjarasamningum um og kasta því kartöflunni til aðila vinnumarkaðarins. Þeir voru reyndar báðir á því fyrir áramót að þessir samningar væru innan þolmarka en þegar þörfin fyrir annan sökudólg jókst breyttist það venju samkvæmt. Seðlabankastjóri og fjármálaráðherra eru líka sammála um að það þjóni engum tilgangi að leita að sökudólgum og fletta gömlum blaðagreinum, sem er auðvitað það sem menn segja þegar þeir vilja ekki kannast við ábyrgð sína. Svo eru þeir báðir sammála um að kenna hvor öðrum um. Seðlabankastjóri kastar kartöflunni til fjármálaráðherra og bendir á lélega stjórn hans á ríkisfjármálum. Fjármálaráðherra grípur jarðeplið en kastar því strax til baka og bendir á að bankinn hafi ekki spáð rétt fyrir um verðbólguna á vanmeti kjarasamningana. Forsætisráðherra bætti um betur á dögunum og sagði berum orðum að Seðlabankinn bæri höfuðábyrgð,“ sagði Sigmar.

„Það er auðvitað rannsóknarefni að bæði seðlabankastjóri og fjármálaráðherra séu svo uppteknir við að benda hvor á annan, á sama tíma og ekki má leita að sökudólgum, að þeir nái hvorugur að sjá hið raunverulega vandamál. Sú firra að tæplega 400.000 manna þjóð haldi fast í pínuoggulitla örmynt í ólgusjó alþjóðaviðskipta er hið raunverulega alltumlykjandi vandamál. Kerfisvandinn eini sanni. Einn minnsti gjaldmiðill í heimi er helsta ástæða þess að Íslendingar borga meira fyrir nauðsynjar og miklu, miklu, miklu meira í vexti en nágrannaþjóðirnar. Örmyntin er líka ein helsta ástæða þess að vaxtakostnaður íslenska ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu er hærri en flestra Evrópulanda og miklu hærri en í nágrannalöndunum. Leitin að sökudólgi ætti að enda þar. Íslenska krónan er heita kartaflan,“ sagði þingmaðurinn Sigmar Guðmundsson.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: