- Advertisement -

Íslandsbankamálið: „Fyrir hönd ríkisins í samræmi við ákvörðun ráðherra“

Jóhann Páll Jóhannsson:

Staðreyndin er sú að fjármálaráðherra og Bankasýslan báru og bera enn lagalega ábyrgð á sölu 22,5% eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka síðastliðið vor.

„Alþingi hefur falið fjármála- og efnahagsráðherra veigamikið hlutverk, ábyrgð, ákvörðunarvald og eftirlit við sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum,“ skrifar Jóhann Páll Jóhannsson Samfylkingu.

„Framkvæmdin er í höndum Bankasýslunnar, sérstakrar stofnunar á málefnasviði fjármálaráðherra sem annast sölumeðferð „fyrir hönd ríkisins í samræmi við ákvörðun ráðherra“, en það er fjármálaráðherra sem ákveður hvort og hvernig skuli selja, kynnir fyrirhugaða sölu, hefur eftirlit með söluferlinu og tekur endanlega ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað.

Þegar spjótin stóðu á fjármálaráðherra vegna bankasölunnar í fyrravor var helst á honum að skilja að sjálfur hefði hann vart komið nálægt sölunni; ekki mátt það vegna „armslengdarreglu“ sem þó er hvergi að finna í lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þetta rímaði illa við málflutning stjórnenda Bankasýslunnar sem sögðu að stofnunin og ráðherra hefðu haft með sér „nána samvinnu í gegnum allt söluferlið“.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ólögmætt valdframsal er jafnvel enn alvarlegra lögbrot…

Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í vikunni léku fulltrúar Bankasýslunnar sama leik og Bjarni: dembdu allri ábyrgð á næsta hlekk fyrir neðan sig, kynntu sig sem óheppna kaupendur fjármálaþjónustu sem reynst hefði gölluð.

Eini vandinn við þessa annars hugvitsamlegu lausn á vandræðum fjármálaráðherra og bankasýslumanna er lagabókstafurinn.

Stjórnvöldum er ekki frjálst að fela öðrum að vinna vinnuna sína og taka ábyrgð á henni þegar illa fer. Ólögmætt valdframsal er jafnvel enn alvarlegra lögbrot en mörg þeirra sem ráðherra og bankasýslumenn hafa verið að reyna að sverja af sér með því að vísa ábyrgð sinni á aðra, ráðherra á Bankasýsluna og Bankasýslan á „söluráðgjafa“ sem nú eiga að hafa séð nær alfarið um framkvæmd útboðsins.

Staðreyndin er sú að fjármálaráðherra og Bankasýslan báru og bera enn lagalega ábyrgð á sölu 22,5% eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka síðastliðið vor. Undan þessari ábyrgð gátu þessir stjórnvaldshafar ekki komið sér með því að framselja vald sitt án lagaheimildar til annars stjórnvalds – hvað þá til einkaaðila.“

———

Úr grein minni, Einkavædd einkavæðing, sem birtist á Vísi.is. Myndin var tekin við afhendingu viðskiptaverðlauna ársins 2021, þegar öll þrjú vildu ólm taka ábyrgð á sölu Íslandsbanka. Nú, þegar staðfestir hafa verið alvarlegir annmarkar og kerfislæg lögbrot við seinni fasa sölunnar, hefur aðeins konan á myndinni viljað axla ábyrgð.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: