„Í boði Sjálfstæðisflokksins sitjum við uppi með forsætisráðherra sem hefur lýst því yfir í ræðustól Alþingis að helst vildi hún sjá að konur ættu að mega sjálfræðis síns vegna láta drepa ófædd börn sín fram að fæðingu.“
Þannig skrifar Inga Sæland í Moggann í dag. Tilefnið er „hörmulegt“ þingmál, eins og Inga orðar það.
„Máli sem vekur með mér bæði hrylling og sorg. Máli sem fær mig til að hugsa um á hvaða vegferð við séum sem þjóð. Það ber heitið „Tillaga til þingsályktunar um aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.““
Texti tillögunnar er þessi:
„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að tryggja að einstaklingar sem ferðast hingað til lands í því skyni að gangast undir þungunarrof fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Þetta verði bundið því skilyrði að viðkomandi megi ekki gangast undir þungunarrof vegna lögbundinna hindrana í heimalandinu og uppfylli skilyrði í lögum um þungunarrof, nr. 43/2019. Þá þurfi viðkomandi að geta framvísað evrópska sjúkratryggingakortinu.“
Inga er ósátt og skrifar: „Alls eru 19 þingmenn sem flytja frumvarpið en fyrsti flutningsmaður er Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður utan flokka. Annar utanflokkaþingmaður og þingmenn frá Vinstri grænum, Samfylkingu, Viðreisn og Pírötum eru með. Þarna eru m.a. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingar, og Guðjón Brjánsson, annar varaforseti Alþingis.
Nú vilja þessir þingmenn, og líklega flestir flokksfélaga þeirra á þingi, að Ísland verði eins konar fríríki fóstureyðinga í Evrópu. Að íslenska heilbrigðiskerfið, sem berst nú þegar í bökkum vegna álags og fjárskorts, taki að sér að eyða ófullburða börnum allt til loka 22. viku meðgöngu fyrir fólk sem vill komast fram hjá lögum í eigin heimalandi.
Þessi tillaga er nú komin fram hér í okkar landi þar sem Alþingi samþykkti illu heilli í fyrra, að heimila fóstureyðingar allt til loka 22. viku meðgöngu. Þá er fóstur orðið fullsköpuð lítil manneskja sem bíður þess að fá að koma í heiminn. Við í Flokki fólksins börðumst gegn þeirri lagasetningu. Afstaða okkar hefur ekkert breyst.
Þetta skal gert undir fána mannréttinda og kvenfrelsis. Þetta er sama fólkið og galar hátt um mannréttindi flóttabarna. Um leið hunsar það mannréttindi og lífsrétt ófæddra barna. Þetta eru alþingismenn sem telja það sjálfsagt að Ísland sé með þessu að hafa bein afskipti af innanríkismálum fullvalda lýðræðisríkis eins og Póllands í þessu tilviki.
Lýðskrumið, tvöfeldnin, hræsnin, hrokinn og lífsfyrirlitningin sem kristallast í þessari þingsályktunartillögu er með slíkum ólíkindum að ég er nánast kjaftstopp og gerist nú ekki oft. Ég hefði ekki trúað því að óreyndu að ég ætti eftir að sjá svona mál koma fram á Alþingi frekar en húrra- og gleðihrópin sem ég upplifði þar þegar heimiluð var eyðing á ófæddum börnum til loka 22. viku meðgöngu eins og gert var fyrir skemmstu. En kannski þarf það ekki að koma á óvart. Í boði Sjálfstæðisflokksins sitjum við uppi með forsætisráðherra sem hefur lýst því yfir í ræðustól Alþingis að helst vildi hún sjá að konur ættu að mega sjálfræðis síns vegna láta drepa ófædd börn sín fram að fæðingu.
Þetta munum við í Flokki fólksins aldrei samþykkja. ALDREI!“
Þannig endar Inga skrif sín.