Ekki er víst að allir félagar í VG hafi glaðst yfir gleðilátum Katrínar á aðalsviði Nató. Þau eldri, sem gengu og gengu frá Keflavík til Reykjavíkur, til að mótmæla setuliðinu á Keflavíkurflugvelli og veru Íslands í Nató hefur eflaust brugðið við þegar sýnt var hversu gaman formanni þeirra þykir að vera í hópi hernaðarbandalagsins.
Kannski þykir einhverjum hann hafa gengið til einskis. Núverandi stjórnendur flokksins eru sýnilega af allt öðru sauðahúsi. Nú er dansinn stiginn í flottveislu hernaðarbandalagsins sem flokkurinn segist vilja fara úr. En það eru nú bara orð. Ekkert að marka. Og hefur í raun aldrei verið annað en orðin tóm.
Samt hafa forverar Katrínar ekki tekið flikk flakk heljarstökk á sviði hernaðarins. Hún er fyrst til þess en örugglega ekki síðust.
„Ísland segi sig úr NATO og biðjist afsökunar á þátttöku sinni í hernaðaraðgerðum á þeirra vegum,“ segir í stefnuskrá Vinstri grænna. Svona upp á punt. Það kemur ekki í veg fyrir að mæta í fínt partý. Smekkur fólks er misjafn. Sumum kann að líka mætingin á Natógamanið meðan öðrum mun mislíka.
„Hann gerir svoddan lukku, eins og gaukur í klukku,“ með Bubba sönglar í höfði mér meðan ég skrifa þetta. Sem var samið um aðra konu á öðrum tíma.
Hann gerir svoddan lukku
eins og gaukur í klukku.
Heimurinn féll að fótum hans
um hálsinn fékk hann krans.
-sme