- Advertisement -

Ísland togaði alltaf í mig

„Ég gat ekki einu sinni íhugað að biðja um launahækkun, af því ég átti ekki í nein hús að vernda ef mér hefði verið neitað, tilvist mín hér var bundin þessum eina atvinnurekanda.“

Fólkið í Eflingu, mynd og texti: Alda Lóa: „Ég kom hingað fyrst sem námsmaður og var í hlutastarfi á bar og hafði verið hérna í rúma fjóra mánuði þegar ég vaknaði morguninn 9. nóvember og opnaði tölvuna mína og las um Trump og kosningarnar, ég fékk nett áfall og sterka þörf til þess að fara aftur heim til Bandaríkjanna, mér fannst eins og ég þyrfti að gera eitthvað, taka þátt og verjast þessum ósköpum. Ég pakkaði saman og keypti mér miða heim til Norður Karolínu þaðan sem ég kem. En Ísland togaði alltaf í mig, mér fannst eins og hér væri ekki allt fullreynt og hér biði mín eitthvað og ég kom aftur.

Ég var 15 ára gamall heima í Norður Karolínu þegar ég fór fyrst að þjóna, og ég var með 12 ára reynslu af barvinnu, þannig að það lá beint við að sækja um vinnu í veitingageiranum í Reykjavík. Ég fékk atvinnuleyfi og vinnu á hótelbar í Reykjavík, á stað sem er meir og minna alltaf undirmannaður. Þetta var eins árs ráðningarsamningur og atvinnuleyfi sem hótelkeðjan útvegaði mér. Hótelkeðjan birti atvinnuauglýsinu eins og henni er skylt að gera þegar fyrirtæki sækir um atvinnuleyfi fyrir erlenda starfsmenn. Engin sótti um líklega af því kaupið er svo lágt og ég fékk vinnuna og var ráðinn. Ég var sem sagt með atvinnuleyfi sem einskorðaðist við þennan tiltekna bar og alveg upp á þá kominn. Ég vann 8 til 12 tíma á dag, mismunandi eftir vöktum og samtals 40 tímar á viku. Ég byrjaði klukkan tvö eða fjögur eftir hádegi og vann til lokun og fékk í vasann 220 til 250 þúsund um hver mánaðamót.

Ég var þakklátur af því það er mjög erfitt fyrir Ameríkana og reyndar alla fyrir utan Evrópu að fá atvinnuleyfi á Íslandi. Ég áttaði mig samt fljótlega á aðstæðunum sem ég gekk inn í. Ég var bíllaus og þurfti að komast til og frá vinnu og vann stundum fram á nótt þegar strætó var hættur að ganga, og til þess að mæta þessu leigði ég dýrt húsnæði í miðbænum og fór allar mínar leiðir fótgangandi.

Ég var ráðinn á skrýtnar vaktir, ekki þessar venjulegu 2,2,3, ég vann alla sunnudaga, alla þriðjudaga, og alla fimmtudaga, og síðan annan hvorn föstudag og laugardag. Yfirmaðurinn spurði mig hvort ég vildi þessar vaktir og ég sagði auðvitað já takk ég var ánægður með allt. „En þetta þýddi að ég var bundnari en ella, þótt að ég væri auðvitað ekkert að fara neitt af því að ég átti ekki efni á því. En fólkið sem vann við hlið mér var á þessum venjulegu 2,2,3 vöktum og fékk heila þrjá daga í frí inn á milli sem er mikil búbót í svona vaktavinnu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég vann þarna með Íslending sem bað um launahækkun en hún fékk synjun og þá hætti hún bara og fékk sér vinnu annars staðar, hún gat það, hún var frjáls. En ég gat ekki einu sinni íhugað að biðja um launahækkun, af því ég átti ekki í nein hús að vernda ef mér hefði verið neitað, tilvist mín hér var bundin þessum eina atvinnurekanda.

Atvinnuleyfið gilti fram í október og í júní spurði ég minn yfirmanninn hvort að hann ætlaði að sækja um framlengingu á leyfinu, af því ég vissi að það tæki tíma að fá það afgreitt. Hann hummaði það fram af sér og gerði síðan aldrei neitt í því á meðan lifði ég við þessa óvissu og var komin á þá niðurstöðu að ég þyrfti að fara heim en á þeim tímapunkti átti ég samt varla efni á því að flytja aftur heim, allt sem ég þénaði var aðeins fyrir brýnustu grunnþörfum af því hérna er allt svo dýrt .

Ég hafði verið og er enn þá virkur í íslenskri FB grúppu þar sem tilgangurinn er að tengja fólk við samkynhneigða hælisleitendur á Íslandi og styðja þá og sinna þeim andlega og félagslega. Ég er til dæmis enn þá í sambandi við mann frá Uganda sem býr hérna, en fyrir hann er lífshættulegt að vera samkynhneigður í sínu heimalandi. Við hittumst af og til og fáum okkur kaffibolla saman og ég reyni að fremsta megni að standa með honum. En í gegnum þennan hóp kynntist ég líka manninum mínum sem er íslenskur og það var hann sem vildi að við giftum okkur, meðal annars út af því að honum fannst erfitt að horfa upp á það hvað vinnan á barnum og óvissan var að éta mig upp, þannig gæti hann njörvað mig niður, eins og honum finnst alltaf jafn gaman að segja, og mér finnst það bara krúttlegt.

Við Ragnar giftum okkur 3. október og sama dag var ég orðin fullgildur samfélagsþegn og frjáls og þurfti hvorki lengur leyfi atvinnurekandans til að búa eða vinna hérna. Áður hafði ég bara verið gestur á landinu en núna er ég hluti af samfélaginu og get gert það sem ég vil og unnið þar sem ég mér býðst vinna, sem er smá íhlaupavinna á veitingahúsum í augnablikinu en ég stefni á að færa mig yfir í ferðamálageirann.
Núna get ég tekið þátt og gert gagn sem ég hef þörf fyrir, en það var auðvitað þess vegna sem ég vildi fara aftur til Bandaríkjanna eftir kosningarnar á sínum tíma, að breyta samfélaginu. En hérna er nóg að gera, ég vil taka þátt í réttindabaráttu LBGT og vinna gegn öllu óréttlæti sem verður á vegi mínum.

Í Norður Karolínu eru verkalýðsfélög tæknilega ekki leyfileg, fylkið er eitt af mörgum fylkjum sem nefnast „Right to Work States“, sem eru fylki með lög sem færa atvinnurekandanum öll réttindi gegn launþeganum og hann er nánast réttlaus. Í þessum ríkjum sem eru mörg, hefur yfirmaður þinn leyfi til þess að reka þig án nokkrar skýringar en atvinnurekandinn er gulltryggður í skjóli þessara laga. Verkalýðsfélögin í Bandaríkjunum hafa verið brotin niður með tímanum, sum staðar eru þau bönnuð, en þau voru sterk á einhverju tímabili sögunnar þótt þau næðu samt aldrei að festa sig í sessi eins og þau gerðu í Evrópu. Ef ég skrái mig í verkalýðsfélag í Bandaríkjunum þá á ég á hættu að verða sagt upp vinnunni. Það er erfitt að vinna á Íslandi af því launin eru svo lág og reynsla mín er einskis metin en hérna er ég þó öruggur og með samning sem er ekki raunin heima þar sem ég get átt á hættu að vera sagt upp starfinu ef það hentaði mínum yfirmanni, ég hef enga tryggingu gegn því.

Aftur á móti eigum við í Bandaríkjunum ríkari menningu í þjónustugeiranum, reynslan og vinnan sem við leggjum á okkur við að þjóna og taka þátt í rekstrinum er metin einhvers. Þar kemur líka þóknunin til sem skiptir miklu máli, þannig virkar það, þú leggur þig fram til þess að fá meira þjórfé. Hins vegar hljómaði það eins og ég væri að kvarta ef ég vildi ræða eitthvað vandamál eða skipulag á barnum við yfirmanninn í Reykjavík, þegar ég vildi vera góður starfsmaður og benda á eitthvað sem gæti farið betur í starfinu, þannig samskipti milli yfirmanns og þjóns er hins vegar tekið fagnandi á samskonar bar heima í Norður Karolínu.“

Jacob Baker er þjónn og félagi í Eflingu. #fólkiðíeflinguSjá fleiri sögur um fólkið í Eflingu: http://folkid.efling.is/


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: