Ekki verður sagt að Davíð Oddsson sé bjartsýnn á komandi tíma. Bjarni Ben fær þykka sneið frá forveranum: „…eins og formaður Sjálfstæðisflokksins orðaði það á Alþingi áður en hann snerist eða var snúið um heilan hring.“
Davíð segir annars um þetta, í Reykjavíkurbréfi morgundagsins:
„Á sama tíma er „kerfið“ sem í raun stjórnar Íslandi í krafti óvenjulega veikrar stjórnmálastéttar að færa landið sífellt nær inngöngu í ESB, en svikist var um að afturkalla aðildarumsókn með réttmætum og sjálfsögðum hætti. Þvert ofan í allt sem sagt var við ákvörðun um inngöngu í Evrópska efnahagssvæðið hafa íslensk yfirvöld þegar þverbrotið öll loforð sem þau gáfu um að virða umhverfi íslensks landbúnaðar og galopna hann ekki fyrir ESB. Sú braut hefur verið opnuð án þess að þjóðin hafi verið spurð. Nú er verið með skýlausu broti á íslensku stjórnarskránni að færa eina meginauðlind landsins, einstæða orku þess, undir endanlegt „boðvald ESB“ eins og formaður Sjálfstæðisflokksins orðaði það á Alþingi áður en hann snerist eða var snúið um heilan hring.
Og þá er aðeins eftir að meðhöndla sjávarútveginn með sama hætti. Og því skyldi honum hlíft eftir önnur afrek? Og þar með er hægt að draga umsóknina vondu óafturkallaða upp úr skúffunum enda þá orðið formsatriði eitt að klára hana.“