Strandveiðisjómenn og grásleppukarlar eru meira en ósáttir við ákvarðanir Kristjáns Þórs Júlíussonar og þeim þykir sem hann dragi um of taum vinar síns Þorsteins Más Baldvinssonar í Samherja. Og þá um leið annarra eigenda stórútgerða. Á kostnað þeirra minni. Mörg dæmi um þessa gagnrýni er að finna á Miðjunni.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, skrifar langa grein í Moggann í dag. Þar segir á einum stað:
„Þetta gerir ráðherra kleift að nota kvótann sem valdbeitingartæki gegn útgerðunum. Því er ekki hægt að treysta á að hægt sé að starfrækja útgerð til langs tíma án þess að vera í góðu sambandi við ráðherra.“ Það má öllum vera ljóst að þessi framkvæmd stenst ekki kröfur réttarríkis eða stjórnarskrár. Geðþóttavald á hér blessunarlega hvergi heima.“
Best er að geta þess að Heiðrún Lind er að fjalla þarna um skýrslu Hagfræðastofnunar og þar er þennan texta að finna og hann á við Namibíu.
„Þar í landi ákveður ráðherra aflamark hverrar tegundar og úthlutar kvóta eftir hentisemi,“ skrifar Heiðrún Lind. Ekki er hægt að sjá svo mikinn mun á hvernig þessu er stjórnað hér og þar. Íslenski ráðherrann stjórnar með reglugerðum. Alþingi kemur hvergi að. Bara ráðherrann. Svona er nú það.