„Fór fram ný rannsókn á því hvort Ísland hafi verið notað sem millilendingastaður fyrir fangaflug bandarískra yfirvalda á árunum 2001–2007 í kjölfar útkomu skýrslu Bandaríkjaþings um yfirheyrsluaðferðir bandarísku leyniþjónustunnar yfir grunuðum hryðjuverkamönnum, sbr. svör þáverandi forsætisráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi 12. desember 2014?“
Þannig spyr Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Þórhildur Sunna bíður nú svars ráðherrans.
En hún spyr um fleira, til dæmis hvort farið hafi verið fram á aðgang að óritskoðaðri skýrslu Bandaríkjaþings um yfirheyrsluaðferðir bandarísku leyniþjónustunnar yfir grunuðum hryðjuverkamönnum, sbr. fréttatilkynningu á vef utanríkisráðuneytisins frá 12. desember 2014? Þórhildur Sunna vill að auki vita hvaða upplýsingar fengust við fyrirspurnum ráðuneytisins og hvar má nálgast þær?
Og að lokum spyr hún: „Fór fram nánari rannsókn á millilendingum mögulegra fangaflugvéla bandarískra yfirvalda í kjölfar fyrirspurna ráðuneytisins og ef svo var, hverjar voru niðurstöður hennar um aðkomu íslenskra yfirvalda og embættismanna að millilendingum fangaflugvéla á íslensku yfirráðasvæði?“