Greinin birtist í Mannlífi um mitt ár 2008. Margt af því sem kemur fram í greininni á vel við í dag.
Það er nauðsynlegt að hafa í huga forsögu samningsins að Evrópska efnahagssvæðinu þegar rætt er um aðild að Evrópusambandinu segir Eiríkur Bergmann Einarsson, dósent og forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst. Andstæðingar Evrópusambandsaðildar telja EES samninginn duga okkur vel í samstarfi við ríki Evrópu og því sé aðildarumsókn um Evrópusambandið óþarfi.
Eiríkur segir Íslendinga einu samningsþjóðina sem enn gangi með þá grillu að EES-samningurinn gangi til frambúðar. Hann segir samninginn duga mætavel fyrir efnahagslífið en þar með sé það upp talið. Fyrirtækin okkar, fjármálastofnanir og útflutningsfyrirtækin eru vel stödd varðandi samninginn, enda er um að ræða efnahagssamning. Auk þess gengur samstarfið vel á mennta- og menningarsviðinu.
Vandinn er pólitískur og lýðræðislegur og kemur hann til af því hvernig EES-samningurinn er settur upp. Aðildarríkjum EES-samningsins sem standa utan ESB er gert að fylgja reglum sem eru settar af öðru fólki sem ríkin hafa engan aðgang að. Ef við tökum samstarf EES eins og það leggur sig, þá erum við Íslendingar fullir þátttakendur í efnahagssamstarfi, á innri markaði og rannsóknar-, menningar- og menntamálasviðinu.
Það sem út af stendur / Fyrst ber að nefna landbúnaðarmálin. Ef við gengjum inn í Evrópusambandið yrði líklega mesta breytingin hjá okkur á sviði landbúnaðar og byggðamála. Verndartollar yrðu niður felldir og í staðinn þyrftum við að taka upp sambærilegt styrkjakerfi og tíðkast annars staðar í sambandinu þar sem landbúnaður er styrktur með beinum hætti en ekki í gegnum tolla.
Sjávarútvegsþátturinn er sá þáttur sem hvað mest hefur verið deilt um. Það eru til hugmyndir að lausn í þessum málaflokki sem við getum vel haldið á lofti. Það er hægt að búa til sérstakt stjórnsýslusvæði utan um íslensku fiskveiðilögsöguna sem skilar okkur einkaleyfi að þessum veiðum. Það er hægt að finna rök fyrir þessu í samskonar undanþágu og sérlausnum sem eiginlega öll ríki hafa fengið sem sótt hafa um aðild að ESB. Noregur og Finnland fengu varanlegar undanþágur í landbúnaði norðan 62 breiddargráðu. Malta fékk margvíslegar varanlegar undanþágur í sínum samningi, m.a. varðandi fiskveiðar. Danir fengu fjöldann allan af undanþágum og það sama getum við gert ef við pössum okkur á því að mæta vel undirbúin til viðræðna. Það eina sem við getum líklega ekki haldið til streitu er að útlendingar megi ekki kaupa meira en ákveðinn hluta í íslenskum sjávarútvegi. Maltverjar og Danir hafa þó náð fram ákveðnum undanþágum varðandi viðskipti útlendinga. En Eiríkur telur samt að þetta sé ekki mikill möguleiki hér varðandi sjávarútveginn þó að það sé ekki útilokað. Hins vegar sé mjög auðvelt að fá undanþágur á þann hátt að við sitjum ein að fiskimiðunum.
Það næsta sem stendur út af er utanríkisviðskiptastefnan. ESB er tollabandalag og fengjum við aðild gengjum við inn í þá tollastefnu sem viðgengst í ESB. Íslensku tollaskránni yrði einfaldlega hent, sem breytir í raun ekki miklu þar sem við erum nú þegar með mjög svipaða tollaskrá og sambandsríkin.
Evrópusambandið hefur verið að berjast við að koma á einhverju sem heitir sameiginleg utanríkis- og varnarmálastefna en án árangurs. Hvert ríki hefur sína stefnu í dag, eins og kom berlega í ljós varðandi Íraksstríðið þegar sum aðildarríkin studdu innrás á sama tíma og önnur ESB-ríki fordæmdu innrásina harðlega. Íslendingar héldu því sinni utanríkisstefnu yrði af aðild, en þeir kæmu að samráði í utanríkismálum.
Sjálfstæði þjóðar / Það er alveg hægt að halda því fram að aðild ríkis að ESB skerði möguleika þess til að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Á fjölmörgum sviðum er það raunin. Þetta er á vissan hátt eins og að ganga í hjónaband. Við ætlum að deila kjörum með þessu fólki sem þarna er en verðum áfram sjálfstæðir einstaklingar. Hins vegar má halda því fram að aðstæður í heiminum hafi breyst það mikið að það sé ekki til neitt sem heiti sjálfstætt ákvörðunarvald þjóða. Ríkin eru orðin svo háð hvert öðru að ekkert þeirra hefur fullkomið vald yfir því sem gerist innan landamæranna. Áður þurftu ríki aðallega að verjast innrás annarra ríkja. Nú hins vegar, ef við tökum dæmi af Íslandi, þá voru það einhverjir fjármálamógúlar úti í heimi sem skutu íslensku krónuna og íslenska fjármálamarkaðinn niður með einu byssuskoti. Það er kannski aðalinnrásin sem við getum orðið fyrir. Við getum ekkert ákveðið hvernig við höfum okkar efnahag, hann er háður öðrum ríkjum. Sama má segja um umhverfismál. Við verðum að semja við önnur ríki um mengunarþætti.
Hugmyndin um fullveldi hefur breyst / Fullveldishugtakið inniheldur í raun rétt til að taka þátt í alþjóðastarfi. Ísland er fullvalda ríki og hefur heimild til að taka þátt í alþjóðasamstarfi og vernda sína hagsmuni á alþjóðavettvangi. Við höfum hins vegar tekið þá ákvörðun að nýta ekki okkar fullveldi í Evrópu. Ísland nýtir ekki fullveldi sitt með þeim hætti að sitja við það borð þar sem ákvarðanirnar eru teknar. Þess vegna má í raun segja að Ísland sé minna fullvalda en þau ríki sem hafa kosið að vera aðilar að sambandinu. Evrópusambandið er eins og hjónaband, þar sem þú ert skuldbundinn inn í ákveðið samstarf þar sem þarf að deila ákvörðunartöku. Ísland er þá svolítið eins og barnið, sem er bundið af ákvörðunum foreldranna, getur reynt að leggja eitthvað til málanna, en getur sáralítið haft um það að segja hvaða ákvarðanir eru teknar að lokum. Því má segja að fullveldi Íslands hafi skaðast við EES-samninginn og eina leiðin til að ná því tilbaka sé að ganga út úr EES-samningnum eða inn í ESB . Í raun er staðan í dag verst fyrir okkur og okkar fullveldi. Þessi millilausn skerðir okkar rétt.
Eyríkið Ísland mun ekki stýra ESB / Öxullinn í ESB er myndaður af Þýskalandi, Bretlandi og Frakklandi og nú einnig Póllandi. Það er alveg á hreinu að Ísland er ekki að fara að stýra þessu samstarfi. Ísland getur hins vegar beitt kröftum sínum á þeim sviðum þar sem okkar hagsmunir eru mest ríkjandi, sem hefur hingað til aðallega verið í sjávarútvegi. Rannsóknir á hegðun smáríkja innan ESB sýna að þeim gengur mjög vel að vernda sína hagsmuni. Þeir eru yfirleitt ekki með mjög ríkjandi hagsmuni í stórum málum og eiga því meiri möguleika varðandi sérhagsmunina en stóru ríkin. Til dæmis hefur Þýskaland oftast tapað kosningum innan ESB. Það sem gerist er að stóru ríkin hafa svo víðtæka hagsmuni að þau koma með svo ósveigjanlegt umboð inn til samninga þannig að það reynist nauðsynlegt að kjósa gegn þeim. Smáu ríkin hins vegar vilja oft vernda eitthvað afmarkað og semja svo um stóru hlutina.
Þingmenn skiptast eftir pólitík / Ísland fengi líklega um fimm þingmenn inn á Evrópuþingið, en það er lágmarkstala sem ríki fær inn á þingið. Hins vegar skiptir það ekki öllu máli því að starfið inni á þinginu skiptist ekki eftir ríkjum heldur eftir stjórnmálaflokkum. Þarna eru hópar kristilegra íhaldsmanna, sósíalista og jafnvel andstæðinga Evrópusambandsins. Því skiptir það í raun litlu máli hversu marga þingmenn hvert ríki er með. Ríkisstjórnirnar sjálfar eru ekkert endilega að beita sér inni í Evrópusambandinu heldur eru það frekar fyrirtæki og hagsmunasamtök sem eru að leita ráða og aðstoðar þingmanna og starfsfólks sambandsins. Það sem myndi breytast færum við inn í ESB er að nokkur fjöldi Íslendinga hefði störf innan sambandsins og gæti þá beitt sér með hagsmuni Íslendinga að leiðarljósi. Það hlýtur að vera okkar hagur, að við höfum eitthvað um okkar mál að segja.
Ísland er í ESB / Íslendingar hafa látið eins og þeir séu ekki í Evrópusambandinu, meðan að, þegar málið er skoðað, við erum auðvitað óformlega í ESB. Raunverulega tökum við þátt í velflestu samstarfi sem þar er, jafnvel meira á fjörmörgum sviðum en Bretar sem þó eru inni í ESB. Þessi leikfimi okkar á hliðarlínunni hefur gert það að verkum að við höfum verið algerlega sofandi gagnvart þessu samstarfi. Hingað hafa komið alls konar reglur, sem við höfum ekki séð fyrr en allt of seint, sem eiga kannski ekkert við hér. Við tökum ekki eftir þeim, heldur koma þær, eftir tveggja ára massífa málamiðlunarsamninga, fullmótaðar til okkar og þá er engin leið fyrir okkur að ná fram okkar breytingum. Værum við innan ESB þá hefðum við tæknilega og pólitískt meiri möguleika á að hafa áhrif. Hin spurningin er svo aftur hvort við hefðum mannafla og getu til að standa í því. Það yrði svo aftur ákvörðun sem við yrðum að taka. Aðstaða okkar yrði að minnsta kosti betri til að hafa áhrif.“