- Advertisement -

Ísland er Evrópumethafi í samdrætti

Það er hreint út sagt ótrúlegt þegar við göngum í gegnum harkalegustu kreppu okkar tíma sé fjármálaráðherra algjörlega stikkfrír.

Atli Þór Fanndal skrifar:

Ég hef ekki tamið mér að verja VG eða ráðherra flokksins. Satt að segja finnst mér þau eiga alla þá gagnrýni skilið sem að þeim beinist. Það eiga að vera afleiðingar þegar fólk svíkur kjósendur sína. Hins vegar finnst mér ótrúlega ómálefnalegur þessi áróður um að Svandís Svavarsdóttir sé að klúðra samningum um bóluefni. Bólusetning er hafin marga mánuði á undan áætlun. Það töldu flestir að það yrði til um mitt ár. Jafnvel þegar útlit var fyrir að bóluefni yrði tilbúið langt á undan björtustu vonum átti fólk von á að bólusetning hæfist í mars eða um kring.

Á meðan þessi bjánalegi áróður er tekinn alvarlega er algjör skortur á umræðu um efnahagsmál og hreint út sagt skelfileg viðbrögð við stöðu mála þar. Ísland er Evrópumethafi í samdrætti. Þrátt fyrir það eru viðbrögð og stærð mótvægisaðgerða hér á landi undir meðaltali að stærð. Þess utan hafa flestar aðgerðir geigað og þær sem virka beinast jafnvel til „sneritlausu“ geiranna frekar en „sneritgeira“.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er stefna núverandi stjórnvalda að smærri aðilar hverfi og stærri aðilar styrkist.

Það er hreint út sagt ótrúlegt þegar við göngum í gegnum harkalegustu kreppu okkar tíma sé fjármálaráðherra algjörlega stikkfrír. Opinber fjárfesting stendur því sem næst í stað. Það einfaldlega kemur fram í fjármálaáætlun að þrátt fyrir að ríkissjóðir gefi í nægir það varla fyrir samdrætti á sveitastjórnarstigi. Sem sagt einn armur hins opinbera krefst þess að hinn armurinn skeri svo svakalega niður að viðbótin er aðeins rúmlega 2 milljarðar. Það er nú allt og sumt. Hverju skiptir þetta? Jú sveitarfélögin fara með nærþjónustu, mikla félagsþjónustu, grunnskóla og það kerfi sem mest leggur til verðmætasköpun í landinu almennt; leikskólakerfið. Það má reyndar benda á að heilbrigðiskerfið í þessu samhengi líka. Því fátt tryggir jafn mikla velmegun og gott heilbrigðiskerfi. Þar fór ríkisstjórnin fram á aðhald þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram.

Nú þegar útlit er fyrir að faraldurinn fari að hjaðna skiptir máli að tryggja að efnahagskrísan valdi ekki röð gjaldþrota smærri fyrirtækja rétt áður en framleiðslutækin geta farið að framleiða aftur. Það yrði risastór tilfærsla eigna til þeirra sem mest eiga. Enn ein slík tilfærslan. Það er stefna núverandi stjórnvalda að smærri aðilar hverfi og stærri aðilar styrkist. Annað er ekki hægt að lesa út úr efnahagsstefnunni. Ég ætla ekki að gera þessu fólki upp slíka heimsku að það skilji hlutina bara alls ekki.

Þessi stefna er svo lán frá yngri kynslóðum. Það er enn einn liðurinn í stríði stjórnmálanna gegn lífsgæðum ungs fólks.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: