- Advertisement -

Ísland er dýrast og Ísland er spilltast

Það er alveg ljóst að Bjarni Ben og Katrín Jak lifa ekki í sama heimi og við, þetta venjulega fólk.

Katrín Baldursdóttir skrifar:

Ísland er dýrasta land í heimi. Nýr listi var að koma út. Ísland er spilltasta Norðurlandið. Sá listi var líka að koma út. Og það er ekki langt síðan grái listinn kom út. Við duttum þar ný inn með Simbave og Mongólíu. Þetta er ekki gæfulegt stjórnarfar. Svo erum við heimsfræg fyrir Samherjaskandallinn. Nýjast þar er meðal annars að Samherjaforystan segist vera að hætta starfsemi í Namibíu í samvinnu við þarlend stjórnvöld en er ennþá á kafi í svindli og svínarí. Heimildir segja að Samherji sé að reyna að kaupa risatogarann Heinaste af sjálfum sér, með aðkomu rússnesk félags í siðlausri viðskiptafléttu. Þannig sé Samherji að tryggja sér skipið á undirverði.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er alveg ljóst að Bjarni Ben og Katrín Jak lifa ekki í sama heimi og við, þetta venjulega fólk. Við sjáum að sjálfsögðu að það er eitthvað mikið að en þau bera þetta af sér og segja að allt sé svo frábært á Íslandi. Allt annað sé misskilningur og rangfærslur. Ríkisstjórnin hefur sagt að í raun ættum við ekki að vera á gráa listanum, þetta sé allt einhver misskilningur og að við hljótum að fara af honum bara einn tveir og bingó í febrúar. Þá finnst ríkisstjórnin alveg sjálfsagt að Kristján Þór sitji áfram sem sjávarútvegsráðherra, þrátt fyrir gríðarlega sterk tengsl hans við Samherja og Þorstein Má. Og Katrín Jak segist treysta Kristján.

Auðvitað sér Bjarni Ben veisluna. Hann er gestgjafinn.

„Sjáið ekki veisluna “ er fræg setning sögð af Bjarna Ben. Hann ætlar sér þar með að slá á þær staðreyndir að það sé dýrt fyrir fólk að búa á Íslandi. Auðvitað sér Bjarni Ben veisluna. Hann er gestgjafinn. Það er hins vegar ekkert pláss í þessari veislu fyrir fólk sem nær ekki endum saman, einmitt vegna þess að það er svo dýrt að lifa á Íslandi. Það fólk er ekki á gestalistanum. Og Bjarna Ben líkar ekki við öryrkja og fátækt fólk. Hann er einn af þeim sem sefur vel þó auðmenn raki saman peningum með því að stela arðinum af auðlindunum, en heldur á sama tíma að öryrkjar séu að stela bótunum.

Það er kominn tími til að gera verulegar breytingar á stjórnkerfinu í þessu landi. Nýtt fólk, ný stefna, nýjar áherslur, ný menning og nýir siðir.

ATH: Ég fer hér rangt með hver það var sem sagði sjáið ekki veisluna. Það var Árni M. Mathiesen fyrrverandi fjármálaráðherra sem sagði. „Drengir, sjáið þið ekki veisluna“. Þetta leiðréttist hér með! Beðist er velvirðinga á þessu!


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: