Sigurjón Magnús Egilsson, ritstjóri Miðjunnar, skrifar:
Öryrkjabandalagið vissi í hvað stefndi og reyndi að fá ríkisvaldið til að bregðast við. Nei. Kom ekki til greina. Að mati þeirra sem ráða eru öryrkjar verðminni en eldislaxar. Hvað þá varðar var brugðist við á punktinum. Á einu augnabliki. Öryrkjabandalagið sendi erindi til félagsmálaráðherra í janúar og óskað eftir að sett yrði undantekning í reglugerð um skerðingu bóta. Fjórum mánuðum síðar drattaðist Ásmundur Einar til að svara. Nei, ég get það ekki sagði ráðherrann. Eða kannski vildi hann það bara ekki. Allt er hægt þegar réttu hagsmunirnir eru undir. Eins og dæmi sanna.
Ríkisvaldið er ákveðið. Það ætlar að hirða dráttarvextina af öryrkjum. „Það er óviðunandi að skaðabætur sem sveitarfélög greiða vegna vangreiddra húsaleigubóta lendi í vasa ríkisins í stað þeirra einstaklinga sem þurfa að reiða sig á framfærslu ríkisins og hafi áhrif á afkomu þeirra á næsta ári og jafnvel í fleiri ár,“ segir Þuríður Harpa formaður í Mogganum í dag.
Öryrkjum finnst það óviðunandi en hvað ætli kvölurunum á valdastólunum þyki?
Ríkisstjórn Íslands er að komast í feitt. Fullt af peningum sem hægt er að hrifsa af bláfátækum öryrkjum.
Í Mogganum bendir Þuríður Harpa á að nú sé Tryggingastofnun að endurreikna og leiðrétta örorkulífeyri fólks sem búsett hefur verið erlendis, í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis sem stjórnvöld hafa fallist á. „Rúmlega 1.000 einstaklingar urðu fyrir þessum ólögmætu skerðingum. Tryggingastofnun hefur lokið við afgreiðslu fyrsta hópsins og heldur síðan vinnunni áfram. Þuríður segir að þessi hópur muni væntanlega lenda í sömu skerðingum og húsnæðisbótahópurinn. Þess vegna ríði á að reglunum verði breytt þannig að undanþága sé veitt þegar greiddir eru dráttarvextir á leiðréttingar aftur í tímann og tryggt að þeir skerði ekki lífeyri.