Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra staðfesti á alþingi í gær, að öryrkjar fengju ekki afnám krónu móti krónu skerðingar í bráð. Það skiptir engu þó þessu hafi verið lofað af formanni hans Sigurði Inga, strax við lögfestingu nýrra laga um almannatryggingar en þá var því lofað að þetta yrði strax leiðrétt hjá öryrkjum; krónu móti krónu skerðingin yrði fljótt afnumin eins og hjá öldruðum enda annað gróf mismunun.
Allir stjórnmálaflokkar hafa lofað að afnema krónu móti krónu skerðinguna gagnvart öryrkjum. En það ríkir ekkert þingræði hér. Það ríkir ekkert lýðræði. Það ríkir ráðherraræði og foringjaræði.Þingmenn ráða engu þeir þora ekki að beita sér. Þeir þora ekki að taka málin í sínar hendur sem þeir gætu gert, ef þeir hefðu kjark.
En nú kemur nýr félagsmálaráðherra fram og talar blákalt um það, að fjallað verði um afnám krónu móti krónu skerðingar öryrkja í tengslum við starfsgetumat næsta vor!
Hvers vegna er þessi skerðing ekki afnumin strax. Hvers vegna var hún ekki afnumin um leið og hún var afnumin hjá öldruðum? Hvers vegna er verið að mismuna öldruðum og öryrkjum í þessu efni. Ég legg til, að Flokkur fólksins taki það mál fyrir og þingmenn flokksins flytji tillögu um það á alþingi,að þessi skerðing verði afnumin strax í næstu viku. Það á ekki að bíða.
Björgvin Guðmundsson.