Innri endurskoðun verður ótrúverðug
- Kolbrún efast um innri endurskoðun. Sótt að Pirötum sem telja Vigdísi Hauksdóttur vera í pólitískri vegferð.
Kolbrún Baldursdóttir, Flokki fólksins, er ósátt með að innri endurskoðun borgarinnar, verði falið að gera úttekt á endurgerð Nauthólfsvíkurbraggans.
„Flokkur fólksins mótmælir því að innri endurskoðun verði falið að ráðast í heildarúttekt á öllu því ferli sem endurgerð braggans fól í sér. Innri endurskoðun hér eftir vísað í sem IE getur varla talist óháð í þetta verkefni vegna ákveðinna „tengsla“ og þeirra upplýsinga sem hún hefur haft allan tímann um framvindu endurbyggingar braggans,“ bókaði hún í borgarráði.
„Í því ljósi munu niðurstöður heildarúttektar IE, þegar þær liggja fyrir varla álitnar áreiðanlegar. Hér er ekki verið að vísa í neina persónulega né faglega þætti starfsmanna IE heldur einungis að IE hefur fylgst með þessu máli frá upphafi í hlutverki eftirlitsaðila og getur því varla talist óháð. Annar þáttur sem gerir IE ótrúverðuga sem rannsakanda er að hún sá ekki ástæðu til að grípa inn í byggingarferlið jafnvel þótt framúrkeyrslan blasti við. Sem eftirlitsaðili og ráðgjafi borgarstjóra hefði IE átt að benda á þessa óheillaþróun og skoða strax hvort verið væri að fara á svig við vandaða stjórnsýsluhætti. Að IE ætli nú að setja upp rannsóknargleraugun og skoða ferlið með hlutlausum hætti er þar af leiðandi óraunhæft að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins og mun varla leiða til trúverðugra rannsóknarniðurstaðna.“
Fáránleg tillaga
Vigdís Hauksdóttir er ekki fjarri Kolbrúnu í málinu. Vigdís er ósátt með að innri endurskoðun rannsaki endurgerð braggans.
„Tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins um óháða rannsókn vegna braggans í Nauthólsvík um að óháður aðili rannsaki hvers vegna framkvæmdir við endurgerð braggans fóru langt fram úr kostnaðaráætlunum var ekki samþykkt. Til grundvallar rannsókninni var lagt til að athugað yrði hverjir höfðu umsjón með verkefninu, gáfu heimildir fyrir framúrkeyrslunni, hvort verkefnið hafi verið boðið út og hvaða verktakar unnu að verkinu. Meirihlutinn hafnaði rannsókninni og samþykkti í staðinn til að fela innri endurskoðun að rannsaka málið. Þessi tillaga meirihlutans nú er fáránleg í ljósi þess hvernig málin um braggann hafa þróast undanfarin misseri. Innri endurskoðun hefur allar heimildir til rannsóknar og þessi tillaga er aumt yfirklór og eftir á skýr.“
Er Vigdís vandamálið?
Dóra Björt Guðjónsdóttir, Pírati og forseti borgarstjórnar, sagði í viðtali við Moggann, að það sé áhugavert að Vigdís spyrji af hverju innri endurskoðun hafi ekki komið fyrr inn í málið á sama tíma og hún noti „hvert tækifæri til að rakka niður innri endurskoðun og grafa undan henni, þessari eftirlitsstofnun borgarinnar.“
Henni þykir framganga Vigdísar vega þungt.
„Þannig að ég spyr mig: Í hvaða pólitísku vegferð er Vigdís Hauks? Er hún raunverulega að beita sér fyrir því að þetta mál verði upplýst eða er hún einungis að þessu til þess að valda hér fjaðrafoki?“ segir Dóra Björt.
„Grasrótin krefst svara, það er alveg skýrt,“ sagði Sigurborg Ósk Haraldsdóttir Pírati í samtali við mbl.is eftir fundinn í dag. „Það sem brennur mest á fólki er hvernig þetta gat eiginlega gerst. Við erum ekki komin með endanlegt svar við því. Við gátum hins vegar farið yfir tímalínuna og sagt frá því hvernig þetta mál hefur snert kjörna fulltrúa.“