Fréttir

Innheimtu ekki virðisaukaskatt

By Miðjan

January 27, 2018

Útlönd Yfirmaður sænska póstsins, Postnord, var á dögunum tekinn á teppið af tollayfirvöldum þar í landi þegar í ljós kom að ríkið hafi orðið af milljörðum sænskra króna vegna þess að Postnord hafi ekki innheimt virðisaukaskatt af vörum sem Svíar kaupa í netverslun frá Kína.

Reyndar hefur komið í ljós að tollayfirvöld hafa látið þetta viðgangast því fjöldi póstsendinga er það mikill að kerfið ræður ekki við að innheimta virðisaukaskatt af öllum þeim vörum sem berast. En engu að síður er þetta brot á tollareglum og því hefur verið gagnrýnt að Postnord, sem er að hluta til í eigu sænska og danska ríkisins, komist upp með að innheimta ekki skattinn fyrir ríkið. Bent hefur verið á að einkafyrirtæki hefðu aldrei geta komist upp með slíkt.

Postnord hefur sagt sér til afsökunar að þar hafi menn talið að vörur sem kosta undir 22 EUR beri ekki virðisaukaskatt, en það er ekki rétt og því ber að innheimta skattinn.

Hagsmunaaðilar í sænskri verslun eru ósáttir við þennan framgang því verslun frá Kína keppi við innlenda verslun.

Rannsóknasetur verslunarinnar.