Innfytjendur eingangrast í Fellahverfi
Aðeins fimm börn með íslensku að móðurmáli hefji skólagöngu í Fellaskóla í haust. Sjötíu prósent nemenda eru börn innflytjenda.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, segir borgaryfirvöld hafa „flotið sofandi að feigðarósi“ hvað varðar íbúaþróunina í Fellahverfi. Hún bókaði um máæið á borgarráðsfundi í dag.
„Nú er svo komið að stór hópur innflytjenda í Reykjavík hefur einangrast félagslega og menningarlega. Komið hefur fram að 70% af Fellaskóla eru börn innflytjenda og að aðeins 5 börn með íslensku að móðurmáli hefji skólagöngu í Fellaskóla í haust. Gera má því skóna að fjölmargir innflytjendur hafi þar af leiðandi ekki náð að tengjast borgarsamfélaginu og blandast því með eðlilegum hætti.
Ekki er að sjá að borgin hafi undanfarin ár mótað skýra stefnu um hvernig forða skuli innflytjendum frá því að einangrast eins og nú hefur gerst. Það er ljóst að þessi staða hefur verið að þróast í mörg ár og hefur borgarmeirihlutinn flotið sofandi að feigðarósi og ekki gætt þess að innflytjendur hafi blandast samfélaginu í Reykjavík nægjanlega vel, hvorki menningarlega né félagslega.
- Hvernig ætlar borgin að rjúfa einangrun innflytjenda í Fellahverfi?
- Hvernig ætlar borgin að bregðast við menningarlegri og félagslegri einangrun þeirra sem þar búa, bæði til skemmri og lengri tíma.
- Hvernig hyggst borgin ætla að standa að fræðslu og hvatningu til að innflytjendur geti með eðlilegum hætti blandast og samlagast íslensku samfélagi í framtíðinni?“