„Forysta Sjálfstæðisflokksins þarf að bretta upp ermar og koma á framfæri við kjósendur fyrir hvað flokkurinn stendur og hvers vegna það skiptir svo miklu fyrir þjóðina að hann verði sem sterkastur,“ skrifar flokksmaðurinn Sigurður Jónsson, fyrrverandi bæjarstjóri, í Moggann.
„Forysta flokksins þarf að hlusta á grasrótina og notfæra sér þann mikla meðbyr sem fékkst í prófkjörunum,“ skrifar Sigurður og setur svo í efsta gír:
„Flokkurinn þarf að leggja höfuðáherslu á að skattar verði lækkaðir á lægstu og miðlungstekjur fólks. Það þarf að hækka skattleysismörkin. Þá þarf að breyta lögum um fasteignaskatt, þannig að skatturinn hækki ekki árlega umfram allar vísitöluhækkanir, sem allt of mörg sveitarfélög nýta sér til að auka álögur á íbúana.“
Sigurður Jónsson bindir vonir við að á hann verði hlustað.
Sigurður er ekki hættur. Hann vill að forysta flokksins stigi niður úr eigin fílabeinsturni. Hér kemur listi Sigurðar:
„Sjálfstæðisflokkurinn þarf að leggja enn meiri áherslu á umhverfismálin. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að auka áherslu sína á frelsi einstaklingsins og draga úr ríkisafskiptum.
Sjálfstæðisflokkurinn þarf að hlusta á baráttumál eldri borgara. Ég er ekki að tala um öfgahópa innan raða eldri borgara heldur þeirra sem tala á skynsamlegum nótum.
Sjálfstæðisflokkurinn þarf að leggja meiri áherslu á að betur verði staðið að heilbrigðismálum með því að nýta betur einkaframtakið en nú er gert.
Sjálfstæðisflokkurinn á alla möguleika á að auka sitt fylgi í næstu kosningum, en þá verður að leita til hins almenna flokksmanns og hlusta virkilega og aðlaga stefnuna þeim sjónarmiðum.
Það er algjörlega nauðsynlegt að Sjálfstæðisflokkurinn nái yfir 30% fylgi í næstu kosningum. Sem sterkur Sjálfstæðisflokkur getum við lagt okkar stefnumál fram í myndun ríkisstjórnar.“