- Advertisement -

Ingu Sæland er fullkomlega misboðið

Ríkisbubbarnir geta séð um sig sjálfir með aðstoð Sjálfstæðisflokksins og fylgitungla hans.

Inga Sæland skrifar:

Af gefnu tilefni þá er orðið tímabært að ég láti almennilega í mér heyra hér.

Ég er komin með nóg af því að hlýða á þá sem fylgjast ekki með og vita ekkert um hvað þeir eru að tala en ráðast svo fram á ritvöllinn fullir af engu nema eigin fordómum.

Ég skammast mín sannarlega ekki fyrir alla þá vinnu sem við Guðmundur Ingi höfum unnið fyrir fátækasta fólkið í landinu.

Það er eitt að hafa lyklaborð og skjá og ætla að njóta þess að vera í samskiptum samfélagsmiðlana, það er allt annað að nota þessa tækni til að ljúga upp á mann og annan og kasta skít í allar áttir.

Ég skammast mín sannarlega ekki fyrir alla þá vinnu sem við Guðmundur Ingi höfum unnið fyrir fátækasta fólkið í landinu, ég skammast mín ekki fyrir að við erum ekki einungis ræðukóngur og drottning þessa þingvetrar heldur höfum lagt fram langflest þingmannamál sem öll eru um það að bæta hag þeirra sem hafa það bágast í samfélaginu.

Sá sem ekki hefur áttað sig á því hvers vegna ég stofnaði Flokk fólksins og í umboði 14.000 kjósenda er á Alþingi, sá hinn sami ætti að hafa vit á því að þegja.

Mér misbýður að þeir sem eru tilbúnir að dæma mann með skítlegt sjálftökueðli skuli ekki einu sinni fylgjast með því sem við raunverulega erum að berjast á þinginu. Það er sannarlega ekki okkar vilji að góðu málin séu ýmist svæfð í nefnd eða felld í þingsalnum og það ekki einungis af ríkisstjórnarflokkunum heldur líka þeim sem þykjast vilja berjast gegn fátækt og ógeðslegri meðferð á okkar minnstu bræðrum og systrum. Sá sem ekki hefur áttað sig á því hvers vegna ég stofnaði Flokk fólksins og í umboði 14.000 kjósenda er á Alþingi, sá hinn sami ætti að hafa vit á því að þegja.

Mér þætti gaman ef einhver af þeim tæplega 6000 öryrkjum sem fengu hækkun frá TR 1. febr. í fyrra og fá framvegis, segðu frá þeim árangri Flokks fólksins. Nú er hætt að telja styrki til tækjakaupa, lyfjakaupa og bensínstyrki til tekna með tilheyrandi sköttum og skerðingum. Þetta gefur að meðaltali um 120.000 krónur á ári til þessara einstaklinga. Það er jú sú upphæð sem hæstvirtur fjármálaráðherra státar af þegar hann rómar þriðja skattþrepið sem hann tekur einhver ár í að láta koma til framkvæmda að fullu.

Það væri líka ánægjulegt ef einhver af þeim 29.000 eldri borgurum sem við fórum í dómsmál fyrir og unnum segði frá því að það væri ánægjulegt að til væri stjórnmálaafl sem berðist gegn valdníðslu stjórnvalda gagnvart borgurunum.

Ég er orðin hundleið á því að verkin sem við vinnum skulu vera lítilsvirt og það sérstaklega af þeim sem við viljum helst vinna fyrir. Ríkisbubbarnir geta séð um sig sjálfir með aðstoð Sjálfstæðisflokksins og fylgitungla hans.

Það undrar mig mjög að þeir hinir sömu sem öskra á allt og alla vegna spillingar eru þeir hinir sömu sem kjósa yfir okkur nákvæmlega það, gjörspillta pólitíkusa.

Íslenskir kjósendur eru aðhlátursefni út um allan heim.

Íslenskir kjósendur eru aðhlátursefni út um allan heim, flykkjast niður á Austurvöll og mótmæla spillingunni, öskra ráðherra úr stólum sínum en skömmu síðar kjósa þá aftur, og aftur og AFTUR.! Og eru svo undrandi á því að ekkert skuli breytast.

Ég er spurð af einstaka snillingi, hvað ætlar þú að gera í því Inga Sæland?

Segið þið mér, hvað á ég að gera í því annað en ég og við Guðmundur Ingi höfum verið að gera?

Er einhver sérfræðingur hér sem getur komið og kennt okkur hvernig við nýtumst þeim best sem við erum að berjast fyrir?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: