„Frá þessum tíma hefur lífsviljinn vísvitandi verið kreistur úr þeim sem eiga undir högg að sækja og hafa ekki getað tekið þátt í gróskumikilli uppbyggingunni eftir hrun. Nei, sú gróska er bara fyrir suma eins og verkin sanna.“
Þetta er tilvitnun í harðorða grein sem Inga Sæland skrifar og birt er í Mogganum í dag. Þar skrifar Inga um eftirmála hrunsins og hversu illa var staðið að verki. „Yfir 10.000 fjölskyldur misstu heimili sín. Gjaldborg var reist utan um íslensk heimili eftir hrun á meðan skjaldborg var augljóslega reist utan um fjármagnsöflin.“
Ingu er hugfast orð Bjarna Benediktssonar um óeðlilega fjölgun öryrkja.
„Hvað er það sem fær fjármálaráðherra til að tala um óeðlilega fjölgun öryrkja? Það er í raun óskiljanlegt að hægt sé loka augunum svona rækilega fyrir þeirri þjóðfélagsþróun sem hér hefur einmitt átt sér stað eftir hrun. Ekki bara börnin sem tóku áföllin með sér út í lífið eins og ég nefni hér að ofan heldur áframhaldandi valdníðsla stjórnvalda gagnvart öllum þeim sem eru hér að berjast fyrir tilverunni af veikum mætti. Það eru stjórnvöld sjálf sem eru að framleiða öryrkja og það er einnig í þeirra höndum að snúa blaðinu við.“
Inga er ekki hætt: „Frá þessum tíma hefur lífsviljinn vísvitandi verið kreistur úr þeim sem eiga undir högg að sækja og hafa ekki getað tekið þátt í gróskumikilli uppbyggingunni eftir hrun. Nei, sú gróska er bara fyrir suma eins og verkin sanna.“
Inga bendir á afleiðingarnar: „Það sem allt of margir gengu í gegnum á þessum tíma var vanlíðan, óöryggi, kvíði og ekkert heimilisfesti. Já, í boði velferðarstjórnarinnar eftir hrun voru heilu og hálfu þjóðfélagshóparnir settir á vergang á meðan fjármunum var forgangsraðað fyrir elítuna.“
Nú segja meðaltöl allt annað.
„Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, kjörtímabil eftir kjörtímabil er níðst á okkar minnstu bræðrum og systrum og stjórnvöldum finnst það bara allt í fína lagi. Excel-skjalið frá OECD segir að hér hafi það allir alveg frábært. Ef þeir segja það, er það þá satt? Ég segi NEI, það er rangt.“
Inga boðar aðgerðir fyrir hönd öryrkja: „Flokkur fólksins er nýbúinn að vinna risastórt dómsmál fyrir hönd aldraðra. Nú er komið að öryrkjum. Við segjum hingað og ekki lengra. Málið sem við erum að undirbúa nú fyrir hönd öryrkja er mjög umfangsmikið og ég trúi að þar muni réttlætið ekki síður ná fram að ganga. Við öryrkjar erum líka menn og eigum rétt á réttlæti til jafns við alla aðra.“