„Ég kem hér upp til að bera af mér sakir því þann 15. mars sl. vændi háttvirtur þingmaður Þórunn Sveinbjarnardóttir mig um útlendingaandúð. Ummæli háttvirts þingmanns urðu til þess að ég ákvað að leggja málið fyrir forsætisnefnd. Ummæli háttvirts þingmanns úr ræðustóli Alþingis eru sérstaklega til þess fallin að kasta rýrð á mig persónulega og geta kallað fram illmælgi og rógburð gagnvart mér í þjóðfélaginu, eru ærumeiðandi og til þess eins ætluð að sverta mannorð mitt. Þessi ummæli háttvirts þingmanns, þar sem hún fullyrðir að ég sé haldin útlendingaandúð, eru að gefnu tilefni einstaklega særandi fyrir mig og mína fjölskyldu,“ sagði Inga Sæland á þingi í dag.
„Ég kem hér upp til þess að standa með Ingu Sæland vegna þess að í þessari umræðu sem þarna fór fram var Flokkur fólksins að leggja fram breytingartillögu, það var ekki eingöngu Inga Sæland. Á þeim árum sem ég hef þekkt hana hef ég aldrei þekkt hana fyrir útlendingaandúð eða -hatur og að koma hér upp í ræðustól og fullyrða það, vegna þess að Flokkur fólksins kemur með breytingartillögu við ákveðið mál, er ekki boðlegt og á ekki að líðast. Mér er það gersamlega óskiljanlegt hvernig í ósköpunum á að vera hægt að snúa því sem við í Flokki fólksins vorum að gera þarna upp í eitthvert útlendingahatur eða útlendingaandúð. Ég vísa því heim til föðurhúsanna og viðkomandi þarf þá bara að fara í naflaskoðun um það hvers vegna í ósköpunum hún hefur þá skoðun,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson flokksfélagi Ingu.
„Í tilefni af athugasemd háttvirts þingmanns Ingu Sæland hér fyrr á fundinum vill forseti taka það fram að forsætisnefnd hefur móttekið það bréf sem hún hefur sent og það verður tekið fyrir á næsta fundi,“ sagði Birgir Ármannsson þingforseti.
„Forseti vill hins vegar geta þess að varðandi ummæli sem falla á þingfundi þá verður forseti, ef hann telur tilefni til, að gera athugasemdir við orðalag þingmanna ef hann telur að það sé ekki sæmandi. Hins vegar verður forseti að geta þess að oft getur verið mjótt á skilsmununum milli harkalegrar pólitískrar umræðu og svo þess sem telja má meiðandi fyrir einstaka þingmenn og verður í raun og veru bara mat forseta á staðnum við þær aðstæður að ráða hvað það varðar. En erindi hv. þingmanns verður tekið fyrir á vettvangi forsætisnefndar og afgreitt þar.“
„Ég þakka fyrir þetta innlegg þitt. En ummælum sem háttvirts þingmanns Þórunn Sveinbjarnardóttir kom með hér úr ræðustóli var ekki beint gegn stjórnmálaflokki eins og venjan er hér, þar sem er verið að tala um að Flokkur fólksins eða Miðflokkurinn eða Sjálfstæðisflokkur eða hinn og þessi flokkur sé svona eða hinsegin, heldur beindi hún orðum sínum beint að mér persónulega og minni persónu, minni æru úr ræðustóli Alþingis. Ef það er í rauninni ekki vanvirðandi framkoma — leyfist að vera með vanvirðandi framkomu hér úr æðsta ræðustóli landsins? Er það leyfilegt samkvæmt þessum siðareglum? Til hvers erum við með þær, virðulegur forseti? Hún kallaði það að ég væri hér að flytja ódýran og ógeðfelldan popúlisma, sem má alveg vera og er bara eðlileg skoðun og allt í lagi með það, ég get tekið því eins og hver sem er, en hún bætti við, sem byggir ekki á staðreyndum — sem er rangt — heldur byggir á útlendingaandúð. Það er ekki einu sinni stigsmunur á útlendingaandúð samkvæmt greiningu og útlendingahatri. Útlendingahatur er rasismi,“ sagði Inga Sæland.
Helga Vala Helgadóttir á lokar þessari umræðu:
„Vegna orða háttvirts þingmanns Ingu Sæland er rétt að vekja athygli hennar á því að háttvirtur þingmaður Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði ekki að háttvirtur þingmaður væri rasisti. Háttvirtur þingmaður Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði hér í atkvæðagreiðslu um breytingartillögu háttvirts þingmanns Ingu Sæland að tillagan bætti um betur, ekki þingmaðurinn. Það eina sem væri á ferðinni væri ódýr og ógeðfelldur popúlismi sem byggði ekki á staðreyndum, sem byggði á útlendingaandúð. Ég óska eftir að háttvirtur þingmaður og formaður Flokks fólksins lesi ræðu háttvirts þingmanns Þórunnar Sveinbjarnardóttur af því að þar sér hún að það er ekki verið að vísa til persónunnar Ingu Sæland heldur tillögunnar sem persónan og þingmaðurinn Inga Sæland var að leggja fram. Tillögunnar — það er alveg skýrt í ræðunni og það er hægt að lesa þetta á heimasíðu Alþingis.“