„Ég áttaði mig engan veginn á svarinu nema hvað lýtur að því að hann hefur náttúrlega engin völd í ráðuneyti sínu, bara akkúrat engin. Það eru bara einhverjir aðilar úti í bæ sem núna eru í einhverri nefnd sem væntanlega verður ekki búin að skila einu eða neinu þegar hæstv. ráðherra fer úr ráðuneyti sínu,“ sagði Inga Sæland í þingræðu. Tilefnið var þetta svar Ásmundar Einars Daðasonar við þessari spurningu Ingu:
„Hvernig stendur á því að fyrir skemmstu, eða fyrir tveimur árum, lækkaði ráðuneyti félags- og barnamála viðmiðið til framfærslu fjölskyldunnar? Það var viðmið sem var langtum hærra en lágmarkslaun í landinu. Það var náttúrlega einsýnt að miðað við framfærsluviðmiðið sem ráðuneytið gaf út lifði enginn Íslendingur á þeim lágmarkslaunum sem þeim var skammtað. Ég óska eftir að hæstvirtur ráðherra tali pínulítið um það.“
Svar Ásmundar Einars var svona:
„Það hefur verið þannig að félagsmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið sem var, hafa haft það hlutverk að birta þessi framfærsluviðmið, en þau hafa verið reiknuð af utanaðkomandi aðilum. Það hefur ekki verið ráðuneytið sjálft sem ákveður hver framfærsluviðmiðin eru, þetta eru ekki pólitískar ákvarðanir, heldur hefur þetta verið reiknuð stærð. Og einmitt fyrir tveimur árum, þegar framfærsluviðmiðið lækkaði, þá fannst okkur og mér það mjög sláandi að það væri að lækka við þær aðstæður vegna þess að það gaf ekki raunsanna mynd. Framfærsluviðmiðið er notað til viðmiðunar við ýmsar ákvarðanir sem teknar eru hér og þar í stjórnkerfinu, bæði hjá sveitarfélögum og ríkinu. Það var einmitt á grundvelli þessarar lækkunar á sínum tíma sem við settum af stað vinnu við að endurskoða framfærsluviðmiðið og sú vinna hefur staðið yfir. Við höfum verið í samvinnu m.a. við háskólasamfélagið og Hagfræðastofnun um það.“
Vitnum aftur í Ingu: „En svona til gamans, eða ekki til gamans, til grafalvarleika, ætla ég að benda á að grunnviðmiðið núna, grunnviðmiðið, hugsið ykkur, fyrir tveggja eða fjögurra manna fjölskyldu, hjón með bíl og tvö börn — og við skulum taka eftir því, sem hvergi eiga heima því að hvorki er gert ráð fyrir að þau séu á leigumarkaði né að greiða af fasteign — að grunnviðmið þessarar fjölskyldu eru 233.165 kr. þó að dæmigert sé verið að tala um að þau þurfi aldrei undir 450.000 kr. til að geta framfleytt sér, fyrir utan húsnæði.“