Inga glímir við veikindi: „Þegar vanmátturinn og vonleysið tekur mann kverkataki er ekkert dýrmætara en að fá hjálp“
Formaður Flokks fólksins, Inga Sæland, hefur verið töluvert fjarverandi á yfirstandandi þingi vegna veikinda.
Í grein sem Inga ritar fjallar hún meðal annars um veikindi sín og fátæktina sem margir glíma við.
„Að ferðast um fallega landið sitt, fylla lungun af hreinu tæru sjávarlofti og geta hlaupið út um allar koppagrundir óhindruð og frjáls er ekki sjálfsagt og ekki öllum gefið. Þúsundir og aftur þúsundir samlanda okkar búa við skerta heilsu, vanlíðan og fátækt,“ segir hún og bætir þessu við:
„Sjálf hef ég glímt við heilsubrest, fötlun og fátækt og á því auðvelt með að setja mig í spor þeirra sem þannig er ástatt um, með öðrum orðum, ég veit um hvað ég er að tala; þegar vanmátturinn og vonleysið tekur mann kverkataki er ekkert dýrmætara en að fá hjálp.
En hver á að hjálpa?
Liggur það ekki í augum uppi að við gerum þær kröfur til okkar siðmenntaða samfélags að það taki utan um alla þá sem eiga bágt og þurfa á hjálp að halda? Hvaða guðlegi máttur ætli stjórni því að fátækt barna á Íslandi hefur vaxið stig af stigi, að gjáin milli þeirra ríku og fátæku gliðnar stöðugt?“ spyr Inga, og svarar einnig:
„Nei, það er rétt hjá þér. Það er enginn guðlegur máttur þar að baki, einungis vanhæf ríkisstjórn sem hugsar ekki um neitt nema eigið skinn, ráðherrastólana undir boruna á sér og hagsmunagæslu vildarvina. Þetta er mannanna verk!“
Inga er ósátt við forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur.
„Er furða þótt okkar minnstu bræður og systur spyrji sig að því hvernig það sé mögulegt að þessi sami einstaklingur, s.s hæstvirtur forsætisráðherra, sé æðstur allra ráðherra en á sama tíma skuli hún samþykkja að fátækir ekki einungis bíði eftir réttlætinu heldur séu skattlagðir í sárri fátækt og allt að 130% af framfærslu þeirra fari í að greiða húsaleigu!
Það er m.a. vegna þess hvernig græðgisvædd leigufélög hafa fengið heimild til þess að níðast á þeim sem ekki eru taldir bærir til að fara í greiðslumat og kaupa sína eigin íbúð.“ segir Inga sem stefnir á að koma aftur til starfa þegar þing kemur saman næsta haust.