Mannlíf

Indverskur innblástur í Gallerí Fold

By Ritstjórn

May 14, 2020

„Ég byrjaði að mála verkin fyrir þessa sýningu í stórborg á Indlandi. Þar var allt fullt af fólki alls staðar. Allt var svo spennandi og nýtt. Ég gekk keikur um göturnar og andaði að mér framandi menningu og öllu því nýja sem ég var að upplifa,“ segir Jakob Veigar Sigurðsson.

Gallerí Fold verður með einkasýningu á verkum Jakobs. Verkin eru flest öll máluð eftir að Jakob Veigar kom frá Indlandi þar sem hann dvaldi í gesta-vinnustofu í Kolkata, Delí.

„Eftir nokkrar vikur, ráfandi einn um borgina, varð allt orðið yfirþyrmandi og óþægilegt. Hávaðinn, mengunin, örtröð af fólki hvert sem ég fór og ég var eins og plastflaska fljótandi stjórnlaus í stórfljóti. Ég réð ekki við neitt. Straumurinn tók af mér völdin og ég var aleinn á stað fullum af fólki. Ég var allt í einu öðruvísi, passaði ekki inn og skildi ekki umhverfið. Öngþveitið og hávaðinn var ærandi. Ég settist niður við tré til að ná áttum og ég sagði því hvernig mér leið. Tréð var fallegt og skartaði sínu fegursta þrátt fyrir að vera umkringt sorpi og mengun. Hávaðinn hafði engin áhrif. Það bara var þarna eins og alltaf, þrátt fyrir fjandsamlegt umhverfið. Ég talaði við tréð og skildi að alvöru fegurð er alveg sama um hvað gengur á í kringum hana. Tilvist hennar er ekki undir einhverju komið öðru en því að vera til og skarta því besta sem aðstæður leyfa. Ég þakkaði tréinu fyrir mig og hélt áfram. Kolkata var aftur orðin falleg og spennandi,“ segir Jakob Veigar.

Jakob Veigar útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands með BA gráðu árið 2016 og úr Vienna Academy of Fine Arts með MA gráðu árið 2019. Hann hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og sett upp einkasýningar um allan heim. Þetta er önnur einkasýning hans hérna í Gallerí Fold. Opnunin verður þann 16. maí kl. 14.