Stjórnmmál „Það er hægt að hafa gaman af honum Össuri. Honum finnst Ríkisútvarpið slíkt prinsipmál að ég hljóti að segja af mér ef ég næ ekki að koma í veg fyrir lækkun á fjárframlögum ríkisins til stofnunarinnar. Máli sínu til stuðnings rifjar hann nú upp að hann hafi hótað afsögn vegna fjárframlaga til þróunarsamvinnu, og telur það hafa verið nokkuð hraustlega gert hjá sér og dæmi um „móralska afstöðu“. Þannig hafi honum tekist að koma í veg fyrir lækkun á fjármagni í máli sem var svo mikilvægt að hann var tilbúinn að stíga til hliðar ef ekki gengi eftir vilji hans.“
Þannig skrifar Illugi Gunnarsson um Össur Skarphéðinsson á Facebook.
„…að utanríkisráðherrann þurfti að kyngja því að setja aðildarumsóknina á ís…“
Ráðherrann heldur áfram: „Þetta er mjög áhugavert. Helsta stefnumál Samfylkingarinnar, og reyndar það eina sem einhverju nemur, snýr að aðild Íslands að ESB. Á síðasta kjörtímabili var sótt um aðild að ESB og Össur var utanríkisráðherra í þeirri ríkisstjórn. Það hefur komið skýrt fram og er óumdeilt að ráðherrar í VG þvældust mjög fyrir ráðherranum í samningaviðræðunum og kvað svo rammt að mótþróanum að utanríkisráðherrann þurfti að kyngja því að setja aðildarumsóknina á ís þegar draga tók að kosningum. VG stöðvaði þetta eina og lang mikilvægasta mál Samfylkingarinnar með stæl og hafði lítið fyrir því – reyndar með pínu kvikindsilegu glotti á vör.“
Getur varla ætlast til þess að orð hans hafi vægi
„Einhverjir hefðu nú sagt að utanríkisráðherra myndi aldrei sitja undir slíku, hann hlyti samvisku sinnar vegna að hóta afsögn og stilla þannig samstarfsflokki sínum upp við vegg. Um var jú að ræða sjálfan tilvistargrundvöll Samfylkingarinnar, algert prinsipmál fyrir flokkinn hans. En nei, hann hótaði afsögn út af deilu um fjármagn til þróunarmála.
Össur getur nú varla ætlast til þess að orð hans hafi hér vægi. Leitun er af ráðherra í stjórnmálasögu landsins sem hefur látið yfir sig ganga jafn mikið stefnubrot eins og hann gerði sem utanríkisráðherra.“