Illugi lokaði á Pútinista: „Hann var eins og fulli kallinn í fermingarveislunni sem fékkst ekki til að sýna þá kurteisi að láta af röflinu“
Illugi segir frá því að „ég neyddist til að blokkera einn Pútinistann hér á Facebook áðan. (Já, ég nota óhikað orðið „Pútinistar“ um þá sem vaða nú um Internetið, þykjast vera að „leita sannleikans“ eða „benda á báðar hliðar“ við stríðið í Úkraínu eða „afhjúpa hræsnina“ og „hvað um Ísrael“ og „hvað um Bandaríkin“ en svo má ekki anda á þá, þá eru þeir farnir að bera blak af hinni sérlega villimannlegu árás Pútins á Úkraínu, þó ekki væri nema „þetta er alltaf svona í stríði“, „það eru allir jafn ógeðslegir“ o.s.frv. Þeir sem hreyfa svona sjónarmiðum eru ekkert allir Pútinistar, ég veit það, en ég er farinn að þekkja þá og þið vitið líka sjálfir hverjir þið eruð!)
Hann segir að „það var með trega sem ég blokkeraði manninn, því ég blokkera eiginlega aldrei neinn (svona einn á ári kannski) og lít á það sem persónulegan ósigur ef ég tel mig þurfa að gera það, því þá hafi mér mistekist að koma viðkomandi í skilning um þær sjálfsögðu kurteisisreglur sem gilda á minni síðu.
Þær eru örfáar.“
Og þær eru svona:
„Persónulegar svívirðingar eru bannaðar og ég ætlast til að fólk geti staðið þokkalega fyrir máli sínu ef ég bið um það. Og ef ég bið fólk að hætta þrefi og stagli, þá ætlast ég til þess að eftir því sé farið.
Nú er það svo að lengi vel eftir að innrásin í Úkraínu hófst, þá birtust Pútinistar 2-3 daglega í hvert sinn sem ég birti eitthvað sem mátti skoða sem gagnrýni á framferði Rússa.“
Illugi nefnir að „fyrst var það „geópólitíkin“ sem var þeim efst í huga og þeir vitnuðu jafnt í John Mearsheimer sem Ólaf Ragnar Grímsson sem Henry Kissinger og héldu bersýnilega að þeir væru að segja mér mikil tíðindi þegar þeir drógu fram speki þessara manna um „sök NATO.“
Og alltaf skulu þeir draga fram hrottalegasta framferði Ísraelsmanna og Bandaríkjamanna í sínum „what-aboutisma“, þótt ég sjái yfirleitt ekki á Facebook-síðum þeirra að þeir hafi haft mikinn áhuga á þeim málefnum fyrr en nú alveg upp á síðkastið. (Hér er ég að tala um raunverulega Pútinista, athugið það.)“
Illugi bætir því síðan við að „þeir segja mér að ég viti greinilega ekkert um vestræna fjölmiðla sem birti ekkert nema lygar, en sjálfir hafa þeir upp á ekkert að bjóða í „sannleiksleit“ sinni en ömurlegustu dreggjar internetsins. Það er langt síðan ég varð leiður á þessu steríla þrefi og bað menn kurteislega að láta af þessu, þegar þeir birtust í þúsundasta sinn með sömu „fréttirnar“ um „hræsni Vesturlanda“, „sök Vesturlanda“, „samsæri hergagnaframleiðenda“ og þar fram eftir götunum. Þeir væru ekki að segja mér nein ný tíðindi og ekkert af þessum Youtube-myndböndum þeirra heldur.“
Illugi er þó ánægður með að „sem betur fer hlýddu flestir á endanum, og ég hef ótrúlegt nokk ekki þurft að blokkera neinn. Fyrr en í dag að einn þeirra var orðinn eins og fulli kallinn í fermingarveislunni sem fékkst bara ekki til að sýna þá kurteisi að láta af röflinu. Mér finnst þetta leiðinlegt, en brýni fyrir fólki að Facebook-síðan mín er opin fyrir umræðum og öllum skoðunum. Öllum. En farið að reglunum: Sýnið kurteisi, standið fyrir máli ykkar, og látið af tilgangslausu og yfirlætisfullu þrefi þegar ég bið um það.“