- Advertisement -

Illir menn með mikið vald

 

Bersýnlega kom í ljós í Kastljósi í kvöld að meðal okkar eru menn, menn sem hafa mikið vald, vald sem þeir kunna ekki að fara með og ættu því að vera sviptir valdinu. Annað er með öllu óásættanlegt. Saklaus maður mátti þola djöfulega vist í þröngum, gluggalausum og ömurlegum klefa í fangageymslu, ekki í fangelsi.

Meðferð lögreglu á manninum sýnir illsku, mannvonsku. Ekki hefur annað komið fram en að þeir sem því stýrðu séu enn við störf og geta þess vegna endurtekið hrottaskapinn.

Það er eðlilegt að allur almenningur sé reiður vegna þessa.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta rifjar upp frétt hér á vefnum þar sem kom fram að á árunum 2008 til 2012 var óskað alls 875 sinnum eftir að fá hlera símtöl hér á landi vegna rannsókna sakamála. Dómstólar sáu ástæðu til að hafna sex af þessum 875 óskum rannsakenda. Sem segir að dómstólar samþykktu 99,3 prósent allra óska um símahleranir á þessu árabili.

Mannréttindadómstóll Evrópu benti á að hlutfall hleranna hér á landi var á bilinu 97,9% til 99,2%, og það sé „óvenjulega hátt“.

Í Danmörku var samsvarandi hlutfall um 97,3%. Hlutfallið þar virðist við fyrstu sýn hátt, en danskir dómstólar hafna þó hlutfallslega fjórfalt fleiri beiðnum en þeir íslensku.

Þeim sem er falin rannsókn mála er falið mikið vald. Það ber að gera miklar kröfur til þeirra sem fá valdið. Bregðist þeir traustinu verður að setja þá af og fá aðra í staðinn.

Hryllingssögur, líkar þeim og kom fram í Kastljósi í kvöld, mega ekki verða til.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: