Illa dulbúin skattahækkun
Stjórnmál Fjármálaráðherrann, Benedikt Jóhannesson, gat ekki dulbúið skattahækkanir þegar hann sagði að jafna ætti stöðu bensínbíla og díselbíla. Benedikt reyndi, en honum mistókst.
Davíð Oddsson hefur margsinnis gagnrýnt núverandi ríkisstjórn fyrir hversu skattaglöð hún er, að hans mati. Hann notar Staksteina dagsins í þetta mál.
„Skattgreiðendur fengu kaldar kveðjur í gær þegar fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp ársins 2018. Skattar hækka um tugi milljarða króna og vekur sérstaka athygli að bílaeigendur eiga á næsta ári að greiða rúmum átta milljörðum króna meira í alls kyns skatta og gjöld en þeir gera í ár og þótti þó nóg um.
Þessir skattar og gjöld hækka úr 43,5 milljörðum króna í 51,6 milljarða króna.
Vinstristjórnin sem sat á árunum 2009-2013 hækkaði líka skatta á bifreiðar en hún var þeirrar skoðunar að dísel væri minna mengandi en bensín þannig að dísel var skattlagt þannig að það væri hagstæðara en bensín.
Almenningur tók sig til og keypti díselbíla, en fær þá sendingu frá núverandi ríkisstjórn sem ákveður að hækka gjöldin á dísellítrann um 18 krónur og bensínlítrann um átta krónur.
Þetta er rökstutt þannig að jafna þurfi gjöldin því að dísel sé ekki endilega heilnæmara en bensín.
Þessi hækkun er sem sagt sett í þann búning að um jöfnunaraðgerð sé að ræða, en vitaskuld er þetta aðeins skattahækkun.
Ef ætlunin hefði verið að jafna hefði átt að lækka bensíngjöldin niður í það sem þau eru á dísel.
Þegar bæði gjöld eru hækkuð, þó að annað sé hækkað meira en hitt, heitir aðgerðin skattahækkun.“