Ida Björg Wessmann flugmaður segir að tíminn lækni alls ekkert öll sár. Í hræðilegum harmleik missti hún báða foreldra sína og bróður í flugslysi við Múlakot í Fljótshlíð. Annar bróður hennar og kærasta annars bróðursins slösuðust einnig alvarlega í slysinu.
Ida Björg rifjar upp harmleikinn og sorgina í hraðvarpsþættinum Eftirmálar. „Sorgin er ennþá mjög stór. Sorgin og söknuðurinn er ekkert minni í dag,“ segir hún.
Hinn mikli harmleikur átti sér stað 9. júní 2019 þegar lítil einkaflugvél fjölskyldunnar hrapaði niður nærri sumarbústað hennar í Fljótshlíð. Um borð var fjölskylda Idu Bjargar Wessman; báðir foreldrar hennar, tveir bræður og kærasta annars bróðurins.
Daginn eftir beið Idu sú ákvörðun um það hvort hún vildi sjá líkamsleifar hinna látnu. Þau voru illa farin en Ida ákvað að fá að sjá móður sína.
„Af því að ég þurfti smá svona að sjá þetta… þú veist, að þetta væru þau. Og hún var bara svona minnst slösuð í rauninni. Og það var ekkert þannig séð neitt öðruvísi. En ég man eftir. Og ég sé ekkert eftir því. En ég sé heldur ekkert eftir því að hafa ekki viljað sjá neitt meira,“ segir Ida og heldur áfram:
„Þau eru farin og þau koma ekki aftur. Ég missti mömmu mína, og pabba minn, og bróður minn. Eðlilega var jarðarförin erfið, því þar var þetta mjög svona sjónrænt að þetta væru þau öll þrjú.“
Sorgin er ennþá stór og hún fylgir Idu alltaf í hinu daglega lífi. „Af því að sorgin væri ekki svona mikil ef maður hefði ekki elskað þau svona mikið og ef það hefði ekki verið svona náið sambandið. Þannig að einhvern veginn fyndist mér líka pínu skrýtið ef sorgin væri ekki. Tíminn læknar ekkert öll sár. Og það er allt í lagi. Þetta má bara vera svona.“