Icelandair er ekki okkar hagsmunir
Gunnar Smári skrifar:
Þrátt fyrir þessa stöðu ætla stjórnendur þessa (augljóslega gjaldþrota) félags ekki að leggja til neina niðurfærslu skuldbindinga gagnvart lánardrottnum. Sem sýnir fyrir hverja stjórnendurnir eru að starfa. Sem má vera eðlileg ályktun þeirra, að þeir starfi fyrir kröfuhafa sem munu eignast búið þegar það fer (opinberlega) í þrot. En það er fráleitt að líta svo á að starf þeirra sé í þágu samfélagsins, að lækkun launa flugstéttanna, ríkisábyrgð og/eða víkjandi lán úr ríkissjóði og nýtt hlutafé úr lífeyrissjóðum alþýðunnar til að verja lán og aðra samninga einhverra brasksjóða út í heimi, sé eitthvað sem almenningur eigi að styðja.
Það er ekki okkar hlutverk að gangast undir ábyrgð fyrir þeim lánum sem útlendir braskarar hafa lagt inn í þetta félag, byggt á flugrekstri sem er fallinn og verður ekki samur í mörg misseri enn. Þessi braskarar veðjuðu á áframhaldandi sókn Icelandair og verða að taka á sig tapið af því veðmáli, það er ekki okkar mál.
Bogi Nils Bogason er í dag starfsmaður þeirra útlendu brasksjóða sem munu fá þrotabú Icelandair í fangið en neita samt að gefa neitt eftir af kröfum sínum, þar sem slíkt gæfi illt fordæmi gagnvart öðrum stærri flugfélögum. Að fjölmiðlar ræði við þennan mann eins og sérstakan gæslumann almannahagsmuna gagnvart flugsamgöngum milli Íslands og nágrannalandanna er fullkomlega hlægilegt.
Okkar hagsmunir eru að ríkið stigi inn og tryggi flugsamgöngur á nýjum forsendum, nýju látlausu alþýðufélagi sem selur ódýr og örugg fargjöld (engan Saga class fyrir auðvald og elítu). Okkar hagsmunir eru á engan hátt samtvinnaðir við hagsmuni lánardrottna Icelandair, einhverra braskara sem lána út á veð í ævafornum flugvélum, veðja á móti hækkun eldsneytis eða með endalausum vexti túrisma.