„Ég hef rætt við íbúa á svæðinu sem eru alveg kolbrjálaðir yfir framgöngu þinni. Þessir íbúar eru að íhuga að setja af stað undirskriftasöfnun til stuðnings kaupmönnunum á Laugavegi, enda eru þeir í sömu sporum og ég,“ skrifar Þórarinn Stefánsson, íbúi við Laugaveg, og er ekki sáttur við framgöngu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.
Þórarinn sér á eftir verslunum sem hafa hætt rekstri. „Þessir aðilar sjá það mælanlega að verslun minnkar þegar Laugaveginum er lokað. Þetta sést á bókhaldi þessara verslana,“ skrifar Þórarinn.
„Ég veit svo sem til þess að við heimili þitt að Óðinsgötu, þar sem nú víkja bílastæði fyrir fallegu torgi, svokölluðu Óðinstorgi, ert þú með einkastæði enda legg ég mína leið stundum að veitingastaðnum Snaps við Óðinsgötu. Kannski þykir þér ekkert tiltökumál, hr. borgarstjóri, að eyða þrjú hundruð milljónum af skattfé borgaranna til að ryðja burtu stæðum fyrir aðra íbúa en sjálfan þig og hrekja um leið rekstraraðila frá svæðinu til þess eins að fegra umhverfið í kringum híbýli þitt. Fasteignaverð fasteignar þinnar hlýtur að hækka mikið við þessa framkvæmd, enda ert þú sjálfur með einkabílastæði, sem verður enn verðmætara við fækkun bílastæða í kringum húsið þitt,“ skrifar Þórarinn í opnu bréfi til borgarstjóra og Mogginn birtir í dag.
Þegar ég legg af stað úr vinnu ek ég rakleiðis heim, sem tekur mig langan tíma enda berð þú ábyrgð á, herra borgarstjóri, einni verstu umferðarstjórnun sögunnar í borginni minni, Reykjavík. Það tekur u.þ.b. klukkustund að komast heim frá vinnu. Og ekki er hægt að skrifa neinn annan en þig fyrir þeirri staðreynd.
Eftir að heim er komið á ég eftir að finna stæði en ég er einn af þeim heppnu sem eru með svokallað íbúakort, sem veitir réttindi til að leggja án þess að borga í stöðumæli. Hins vegar tekur það mig mjög langan tíma að finna stæði en það hefur lengst tekið mig tvær klukkustundir. Þetta er ekki boðlegt, herra borgarstjóri og nágranni.