United Silicon í Helguvík.

Fréttir

Íbúar verði ekki tilraunadýr

By Miðjan

May 24, 2017

„Nei, það er ekki í lagi að almenningur sé hafður sem tilraunadýr, enda hef ég alltaf tekið það skýrt fram og krafist úrbóta þegar það átti við,“ sagði Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra á Alþingi, þegar hún svaraði Einari Brynjólfssyni Pírata um stöðuna hjá United Silicon.

Einar spurði aftur og þá um hversu mikið langlundargeð ráðherrann hefur ef upp úr dúrnum kemur að þær umbætur sem gerðar voru duga ekki til þess að ráða bót á þeirri mengun og þeim subbuskap sem þarna er. Kæmi til greina að rifta samningnum við United Silicon?

„Ég held að þingmaðurinn viti þetta en ef hann veit það ekki upplýsist hér með að langlundargeð mitt er ekki mikið þegar kemur að þessari verksmiðju þar sem starfsemin hefur gengið illa. En það er líka mikilvægt að vita að Umhverfisstofnun hefur heimild til fyrirvaralausrar lokunar ef þessi gangsetning gengur ekki sem skyldi. Ég vænti þess að fylgst verði vel með og að Umhverfisstofnun beiti úrræðum sínum og gæti ýtrustu varúðar fyrir hönd almennings í þessu tilviki eins og hún hefur gert hingað til.“