Íbúar Bessastaða földu loftnetið þegar þau vildu horfa á Kanasjónvarpið
Guðni Th. Jóhannesson, forseti lýðveldisins, mætti í viðtal í þættinum Synir Egils á Samstöðinni í dag, fullveldisdaginn 1. desember. Í viðtalinu ræddu þremenningarnir um fullveldishugtakið, breytilegt inntak þess og sögu. Þeir fóru um víðan völl og bar ekki minna á sagnfræðingnum Guðna en forsetanum.
Falda loftnetið á Bessastöðum
Í samhengi við þróun fullveldisins frá því að Ísland varð fullvalda ríki fyrir 105 árum síðan, spurði Gunnar Smári: En 1918, ef þú hefðir lagt það fyrir fólk þá að hér yrði herstöð? Fólki hefði fundist það vera fráleit hugmynd.
Guðni svaraði:
„Já, algjörlega. Og af því að við höfum minnst hér á efnahagslegt fullveldi, formlegt fullveldi – hvað með menningarlegt fullveldi? Á sjöunda áratugnum þurftu þau sem vildu horfa á Kanasjónvarpið á Bessastöðum að fela loftnetið. Það mátt ekki horfa á Kanasjónvarpið á Bessastöðum. Þá var barist gegn þeirri óáran, að áliti menntamanna, en almenningur allur kaus það kannski helst, að mega horfa á Bonanza og hina þættina sem þið munið kannski betur eftir en ég, öldungar mínir.“
– Nei, ég var svo … byrjaði Sigurjón
„Fenguð þið ekki að horfa á Kanasjónvarpið?“ spurði forsetinn.
„Jú, ég var bara svo virkur, ég nennti ekki að sitja fyrir framan þetta, ég vildi vera úti að gera eitthvað,“ svaraði Sigurjón en bætti við: „Bonanza reyndar var undantekningin.“
Hvað hefðu þau sagt um Netflix?
„En einmitt,“ sagði Guðni, „þú spyrð: hvað hefðu Íslendingar sagt um erlendan her í landinu 1918? Hvað hefðu – nú bara dettur orðið menningarpostuli í kollinn á mér, ég er ekki að segja það neinum til hnjóðs – en hvað hefðu þau öfl sagt, sem börðust gegn Kanasjónvarpi, ef þau hefðu getað náð að rýna í framtíðina og séð það sem við höfum núna? Netflix og hvaðeina. Það var meira að segja barist gegn NORDSAT, norrænum gervihnetti hér, þegar hann átti að koma og valda hér tjóni á íslenskri menningu.“
– Þetta er bara undanhald, linnulaust, frá fullveldinu? spurði Gunnar Smári.
„Linnulaust undanhald! segir svartsýnisseggurinn en glottir,“ svaraði Guðni. „En þá segi ég á móti: Nei, þetta er linnulaus þróun og endurskoðun á fullveldishugtaki. Og fullveldi snýst öðrum þræði einmitt um alþjóðasamstarf. Og tengsl við umheiminn. Fullveldi snýst ekki um lokun. Fullveldi snýst um opnun. Og fullveldi snýst um samvinnu, samstarf. En auðvitað á jafnréttisgrundvalli og því að við, þegar til kastanna kemur, séum eigin herrar í eigin landi.“