Styrmir Gunnarsson skrifar enn og aftur fína grein í Morgunblaðið á laugardegi.
Hann kemur meðal annar að yfirbyggingu hagsmunasamtaka atvinnulífsins og eins launþega. Frábært innlegg í umræðuna:
„Í stóru húsi við Borgartún eru mörg hagsmunasamtök atvinnurekenda samankomin. Er virkilega þörf á öllum þessum samtökum til að gæta hagsmuna atvinnuveganna? Er nauðsynlegt að hafa sérstakan framkvæmdastjóra yfir hverju og einu félagi og sérstaka skrifstofu með tilheyrandi mannahaldi? Hverjir borga þennan kostnað? Það eru að sjálfsögðu félagsmennirnir, þ.e. fyrirtækin í hinum ýmsu greinum atvinnulífsins, og þótt sá kostnaður kunni að skipta stóru fyrirtækin litlu máli má ganga út frá því sem vísu að hann skipti máli fyrir lítil fyrirtæki.
Þar að auki er reynslan sú að félagasamtök af þessari gerð, sem eru auðvitað fyrst og fremst hagsmunagæzluaðilar, hugsa meira um hagsmuni hinna stóru í hópi félagsmanna þeirra en hinna smáu.
Getur ekki verið að atvinnulífið sjálft geti sparað sér umtalsvert fé með því að draga úr þessu viðamikla skrifstofubákni, sem orðið hefur til í kringum um það?
Hið sama á að sjálfsögðu við um verkalýðs- og launþegafélög. Í kringum hvert og eitt félag hefur orðið til skrifstofuhald með launuðum starfsmönnum. Kostnaður við það er greiddur af félagsmönnum og svo vel vill til fyrir félögin að atvinnurekendur hafa tekið að sér innheimtu félagsgjalda með því að draga þau frá launum.
Er ekki hugsanlegt að það sé kominn tími á endurskipulagningu verkalýðs- og launþegahreyfingar með það að markmiði að draga úr kostnaði við yfirbyggingu hennar?“