Seint á sunnudagskvöldið ók ég Reykjanesbraut. Bíllinn var ekki upp á sitt besta og mér því ómögulegt að aka hraðar en löglegur hámarkshraði er.
Eftir að hafa ekið tvöfaldakaflann kom aftan að mér stór pikköp. Sá var með mörg ljós að framan. Nokkur í grillinu og á stuðaranum og annan eins fjölda á þaki bílsins. Ökumaðurinn kunni sýnilega illa við að ég æki ekki hraðar en leyfilegt var. Hann gætti þess að hafa sem minnst bilið milli bílanna. Eflaust var það aldrei meira en fimm metrar. Auk myrkursins var slyddughraglandi og útsýni því takmarkað.
Það var ekki fyrr en við komum að álverinu sem ég komst í raun út af veginum svo sá á stóra bílnum kæmist hraðar.
Ekki veit ég hvað plagaði ökumanninn á pikköpnum. Niðurstaðan er eigi að síður sú, að hann hafi verið í einum lifandis spreng. Vonandi náði hann tímanlega á skálina.
Sigurjón M. Egilsson.