- Advertisement -

Í liði með Gvendi góða og skrattanum, samt vann okrarinn

Afsakið, sagði ég við fólkið, en vitiði ekki að kranablávatnið okkar hér á Íslandi er nákvæmlega það sama og það sem er í þessum brúsum?

Magnús R. Einarsson skrifar:

Ég fór í matvöruverslun um daginn sem er svo sem ekki í frásögur færandi, nema fyrir þá sök að mér ofbauð einu sinni sem oftar okrið hjá íslenskum kaupmönnum. Það var ungt amerískt par á undan mér í röðinni með heilt karton af hálfslítra plastbrúsum, 12 stykki, með drykkjarvatni. Hver brúsi kostar 130kr, lítraverðið sumsé 260kr. Parið ætlaði greinilega að kaupa 6 lítra af vatni fyrir 1560kr.

Afsakið, sagði ég við fólkið, en vitiði ekki að kranablávatnið okkar hér á Íslandi er nákvæmlega það sama og það sem er í þessum brúsum? Nema í krananum er það ókeypis. Eða svo gott sem, en ég fór ekki út í það heldur sagði þeim frá Gvendi góða, Guðmundi biskup Arasyni sem var gríðarlega öflugur maður í nánum tengslum við náttúruöflin og almættið. Hann var meira að segja svo almennilegur að hann hætti við að ausa vígðu vatni á skrattann sem bjó í skúta í Drangeyjarbjargi því einhvers staðar verða vondir að fá að vera. Reyndar var skrattinn búnn að skera á tvo þætti í reipinu sem hélt Gvendi góða á meðan hann var að vígja Drangeyjarbjörg og var því með biskup í drápsfæri. Þessi besti biskup af öllum íslenskum biskupum í eitt þúsund og nítján ár vígði seinna og blessaði vatnsból okkar Reykvíkinga og hefur okkar vatn heitið Gvendarbrunnavatn æ síðan. Af því vatni hefur enginn orðið veikur, hvað þá drepist.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Parið mjakaðist í átt að kassanum, brosti vandræðalega eins og kurteisum Ameríkönum er gjarnt þegar þeim finnst eitthvað einmitt vandræðalegt. Stúlkan og pilturinn þögðu undir minni innblásnu frásögn, en meðtóku greinilega alls ekki skilaboðin sem fólust í ræðu minni, því þau keyptu vatnið, stungu brúsunum í bakpoka og hröðuðu sér út. Ég tapaði þótt ég hafi haft merkilegt nokk bæði Gvend góða og skrattann mín megin. Okrarinn vann.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: