- Advertisement -

Í 5. bekk gafst skólinn upp á mér

Leigumarkaðurinn hefur flogið upp úr öllu valdi og ég þori ekki að leigja út í bæ og eiga á hættu að eiga ekki fyrir mat.

 Fólkið í Eflingu. Mynd og texti. Alda Lóa.

Ef ég er ekki hreinlega kallaður „Bara Hann Aron“ þá kalla strákarnir mig „Baron Aron.“

Mér líður vel á Búllunni, það vantar ekki, og mér finnst alltaf gott að líta á vinnu sem eitthvað annað en bara skyldu, hér hitti ég strákana og svo grilla ég hamborgara í leiðinni og nýti ofvirkni mína til fulls. Við höfum það skemmtilegt í vinnunni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þegar ég fæddist var mamma svo ung, hún var 21 árs. Hún var mikið ein og réð ekkert við mig. Pabbi var á sjónum, stundum marga mánuði í senn. Þegar ég byrjaði í Rimaskóla fór eitthvað ferli af stað sem við höfðum lítið eða ekkert um að segja þegar litið er til baka. Ég fór í allskonar próf og var greindur með ADHD á háu stigi hvað sem það nú þýðir og var settur á lyf í sex ára bekk.

Minningin af þessum lyfjum er hins vegar ekki góð. Ég hafði sem barn öðruvísi skilning en fólk í kringum mig á tilverunni. Ég var með söfnunaráráttu, safnaði nöglum, grjóti, frímerkjum bara öllu lauslegu. Ég trylltist alltaf þegar einhver komst í dótið mitt og ef mamma reyndi að losa okkur við það.

Í fimmta bekk gafst skólinn upp á mér. Ég var lagður í einelti og svaraði fyrir mig sem verður til þess að ég var sendur vestur. Ég skildi þetta ekki fullkomlega þá en skólinn og barnavernd lögðu til að ég yrði sendur í fóstur.

Foreldrar mínir stóðu eftir á bryggjunni í Hólminum þegar ég sigldi einn yfir með Baldri tíu ára gamall. Þeim var sagt að þau mættu ekki fylgja mér yfir. Þegar ég kem á Brjánslæk þá hvolfdist yfir mig þessi ótti yfir að hitta nýtt fólk. Ég gubbaði alla bílferðina á leiðinni á nýja heimilið þetta var mikill tilfinninga rússíbani fyrstu mánuðina.

Ég fór á heimili fyrir vestan hjá fjölskyldu sem tóku að sér börn eins og mig. Fyrst átti ég að vera hjá þeim í þrjú ár en það endaði með því að ég vildi vera áfram og kláraði tíunda bekk fyrir vestan. Ég og sonur hjónanna urðum miklir félagar. Við vorum mikið í fótbolta og síðan á fjórhjólum og mótorhjólum. Karlinn var með fiskeldi þar sem við unnum okkur inn fyrir mótorhjólunum. Maður þurfti alltaf að vera að gera eitthvað.

Skólinn hefði mátt ganga betur, ég hafði verið á rítalíni frá sex ára aldri og leið alltaf eins og mig vantaði persónuleika. Þegar ég tók þessi tryllingsköst þá var ég eins og einhver hamslaus maskína, það var ekkert hægt að tala við mig. Í níunda bekk fékk ég snjóbolta í andlitið og ég sá bara rautt og hjólaði í strákinn sem kastaði í mig. Ég var settur í leyfi frá skólanum og fékk ráðrúm til þess að hugsa mig um. Ég tengdi þessi reiðiköst mín við lyfin, í framhaldinu ákvað ég að hætta að taka þau og hef ekki gert það síðan. Eftir að ég hætti á lyfjunum fæ ég þessi reiðiköst svo fáránlega sjaldan eftir það.

Ég hafði líka verið á svefnlyfjum frá sex ára aldri, ég tók töflurnar eftir matmat og steinrotaðist. Sonurinn á bænum kvartaði yfir því að leikfélaginn líflaus á kvöldin. Þá var ég látin taka töflurnar um miðnætti sem leiddi til þess að ég gat ekki haldið mér vakandi og svaf á borðinu í skólanum.

Í kringum fermingu vildi ég fá eitthvað frá mömmu sem hún gat örugglega ekki gefið mér á þeim tíma og til þess að hefna mín tók ég of margar svefnpillur sem leiddi til þess að ég var endanlega tekin af svefntöflunum. Svefninn er enn þá truflaður hjá mér, ég vaki of lengi og sef fram eftir sem er ákveðin vítahringur. Mér finnst svo óþægilegt að fara að sofa af því ég er svo hræddur við að missa af einhverju.

Ég útskrifaðist með 7.5 úr tíunda bekk sem ég hefði eflaust aldrei gert ef ég hefði haldið áfram á lyfjunum. Ég hafði verið á lyfjum í rúm átta ár. Ferli sem fór af stað sem mamma réð ekki við hún var ekki í aðstöðu til þess að vita betur á þeim tíma. Í dag er mér meinilla við allt sem hefur áhrif á hausinn á mér, ég reyni að halda honum hreinum. Ég tek varla verkjatöflu nema í algjörri neyð.

Á meðan ég var fyrir vestan skildu foreldrar mínir og pabbi flutti til Flórída. Ég heimsótti pabba eftir 10. bekk og hann lofaði að kaupa handa mér fartölvu ef ég færi í menntaskóla og ég gekkst við þeim samning og skráði mig í Borgarholtskóla. Þetta var haustið 2007 og ég var í lífsleiknitíma hjá umsjónarkennaranum mínum með enga bók af því bókin var uppseld og ófáanleg. Kennarinn tjúllaðist út í mig og gaf mér puttann. Ég brotnaði niður, ég tók því svo illa og hætti að mæta. Mamma reyndi að vekja mig á morgnanna og senda mig í skólann, hún var búin að borga skólagjöldin og skiljanlega mjög svekkt.

Ég hljópst á brott og sagði við vini mína að mamma hefði rekið mig að heiman. Ég trúði því að ég væri á götunni og kynntist allskonar villingum og rugli. Fann einhverja kjallaraholu og þar hittum við mann og ég prófaði kanabis en ég gafst fljótlega upp og skreið aftur heim.

Ég flutti til ömmu og afa og leið mjög vel hjá þeim og fékk vinnu í Nóatúni í Grafarholti. En svo kom Kreppan og samdráttur og við yngri strákarnir misstum vinnuna. Ég gerði aðra atrennu í skólamálunum og fékk inni í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti ásamt því að fá skólastyrk. Í þetta skiptið ákvað ég að læra það sem mig langaði og fór á myndlistabraut. Mig langaði eingöngu að læra að teikna og tók alla kúrsa í því sem ég gat en var ekkert sérstaklega að miða á stúdentspróf neitt frekar.

Ég hef verið á leiðinni til Flórída í lengri tíma en það hefur bara alltaf eitthvað komið upp á. Ég kvaddi kennarann í FB og var á leiðinni til Flórída en gleymdi að senda inn búsetu umsókn fyrir 21 árs aldur, það var eitthvað svo mikið að gera hjá mér, örugglega eitthvað kærustuvesen, þá missti þann glugga. Þá var orðið of seint að fara aftur í FB þannig að ég fékk vinnu á frístundaheimili í Fossvogi sem er besta starf sem ég hef stundað á ævinni. Ég vann þar í sex ár, en af réttlætiskennd og prinsipp ástæðum sögðum við nokkur upp vinnunni til þess að mótmæla aðstæðum þegar okkur fannst borgin ekki hugsa nógu vel um húsnæðið sitt. Við vildum þrýsta á yfirvöld með uppsögnum okkar til þess að gera eitthvað í málinu en fyrir vikið misstum við vinnuna og þannig endaði ég hér á Búllunni. Núna fjórum árum síðar eru fréttir af því að þessu húsnæði við Fossvogsskóla hefur loksins verið lokað.

Leigumarkaðurinn hefur flogið upp úr öllu valdi og ég þori ekki að leigja út í bæ og eiga á hættu að eiga ekki fyrir mat. Frekar bý ég í Hafnarfirði heima hjá mömmu enda gengur sambúðin mjög vel hjá okkur í dag. Ég var orðin 18 ára þegar litla systir mín kom í heiminn en ég segi alltaf að hún hafi verið bjargvætturinn hennar mömmu. Fram að þeim tíma hafði mamma verið í stríði við eigið heilbrigði, en þegar litla systir mín fæddist þá breyttist allt og líka heilsa mömmu.

Þetta er einfalt líf hjá mér í dag. Ég kem í vinnuna, hitti strákana mína og tek strætó heim eftir vakt, „rinse and repeat“. Ég hef ekkert teiknað síðan ég hætti að vinna á frístundaheimilinu en tölvuleikirnir eru stór þáttur í lífi mínu, kannski svona „escape mecanism“.

Núna loksins lítur út fyrir að ég sé að flytja til Flórída. Ég hef möguleika til að fá vinnuvísa. Ég ætla að láta á það reyna og eyða meiri tíma með fjölskyldu minni sem býr úti. Systir mín býr líka á Flórída. Við erum tvíburar þrátt fyrir að það eru þrjú ár á milli okkar í aldri. Mér þykir vænt um fjölskyldu mína, hún sundraðist, en þetta er samt fjölskyldan mín.

Við pabbi höfum misst af hvor öðrum. Hann hefur búið á Flórída í 15 ár og vinnur sem bílstjóri á nóttunni. Ég gæti fengið vinnu hjá sama fyrirtæki og hann. Okkur pabba langar að gera eitthvað saman, kannski opnum við hamborgarastað í Tampa. Í versta falli kemur maður aftur hingað og hoppar á grillið. Ég lifi bara einn dag í einu. Mér líður alltaf eins og ég sé sextán ára. Pabbi sagði við mig að lífið byrjaði ekkert fyrr en eftir þrítugt og hver veit kannski eignast ég mína eigin fjölskyldu í Flórída.

Maður reynir að finna sér sinn stað og gera öllum til geðs þannig að fólki líki vel við mann. Þannig hefur það verið hjá mér. Ég reyni bara að vera happý.“

Sigurður Aron Elfar Guðmundsson er vaktstjóri á Búllunni og félagi í Eflingu. #fólkiðíeflingu Sjá fleiri sögur um fólkið í Eflingu: http://folkid.efling.is/


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: