- Advertisement -

„Hvítskúraðir englar“ í Miðflokki?

Birgir Þórarinsson og Krstján Þór Júlíusson.

„Oft og tíðum talar Miðflokkurinn eins og hann sé nánast allur í heild sinni hvítskúraðir englar, en hann á sína hlutdeild í því verki. Ég teldi betra að menn könnuðust við þá hlutdeild frekar en að vísa henni til einhverra annarra sem bera síður ábyrgð,“ sagði landbúnaðarráðherrann, Kristján Þór Júlíusson, þegar hann tókst á við Birgi Þórarinsson Miðflokki um stöðuna í landbúnaði og aðgerðir til honum til stuðnings.

„Við erum að vinna með hugmyndir í þeim efnum inni í ráðuneyti mínu sem ég vænti að geta kynnt innan tíðar,“ sagði ráðherrann. Hann taldi upp stöðu einstakra búgreina.

„Garðyrkja gengur mjög vel. Mjólkin gengur sömuleiðis mjög vel. Alifuglabúskapur gengur ágætlega, svínaræktin sömuleiðis. Vandinn sem við glímum við er sérstaklega í kjötframleiðslu, í lambi, sem er ekki nýr vandi, í nautakjöti. Þarna eru greinilega mjög sárir staðir í íslenskum landbúnaði í dag.“

Birgir Þórarinsson hafði meðal annars sagt: „Kjötbirgðir hrannast upp, bæði í búfé, á fæti hjá bændum, og í birgðageymslum sláturleyfishafa. Auk þess er fyrirséð að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti muni að öllu óbreyttu auglýsa tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðarvörum frá ríkjum Evrópusambandsins. Frumvarp um að eldra fyrirkomulag verði tekið upp tímabundið til eins árs dugir ekki til, það þyrfti að fresta útboði á tollkvótum í kjöt- og mjólkurvörum vegna ástandsins. Verði ekki gripið til ráðstafana til að koma í veg fyrir að meira kjöt komi inn á yfirfullan markað mun það leiða til hruns í verði á kjöti til framleiðenda og fjöldagjaldþrot blasir við.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: