- Advertisement -

Hvert og eitt ber ábyrgð á eigin hegðun

Alþingis bíður stórt verkefni að rétta það af sem miður hefur farið síðustu daga, sagði Logi Einarsson.

„Það er stórkostleg áskorun fyrir okkur öll, og við höfum oft rætt það í þessum sal, hvernig við getum byggt upp traust á stjórnmálum og Alþingi. Þetta atvik er ekki síst dapurlegt því að við vorum að sjá það traust þokast upp á við í þeim mælingum sem eru gerðar með reglubundnum hætti á trausti til Alþingis,“ sagði Katrín Jakobsdóttir á Alþingi, vegna Klaustursmálsins.

„En síðan vil ég segja að við erum auðvitað öll hingað kosin til þess að standa við okkar sannfæringu og hvert og eitt okkar ber líka ábyrgð á sinni eigin hegðan. Við hljótum að gera þær kröfur um leið og við setjum okkur siðareglur að hvert og eitt okkar fari yfir þær siðareglur, taki það til sín að bera ábyrgð á sinni eigin hegðan, hvort sem við erum stödd í opinberum erindagjörðum eða hvar sem við erum stödd í almenna rýminu, því að við erum alltaf kjörnir fulltrúar, sama hvar við erum,“ sagði hún.

Logi Einarsson átti í orðaskiptum við Katrínu. Logi sagði á einum stað:

„Okkar bíður stórt verkefni. Síðustu dagar hafa haft gríðarleg áhrif á okkur og það eru opin sár sem þarf að græða. Ég vil taka það fram að ég treysti forseta, forsætisnefnd og siðanefnd mjög vel fyrir því starfi sem hún á fyrir höndum. En við þurfum líka að setjast niður hér saman og ræða hvaða áhrif þetta hefur á þingmenn, á þingstörfin, á stjórnmálin í heild sinni, á jafnréttisbaráttu kynjanna, á baráttu hinsegin fólks og fatlaðra, hvernig við getum tryggt að við sem þingmenn getum unnið áfram með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi, hvernig við getum aftur aukið traust og virðingu þingsins.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: