- Advertisement -

Hvert ertu að fara fjármálaráðherra ?

Opið bréf

Kári Stefánsson

Kári Stefánsson.

Bjarni, í viðtali við þig sem birtist í viðskiptablaði Morgunblaðsins á miðvikudaginn sagðist þú sakna þess að ekki sé „tekin dýpri umræða“ um Landspítalann og rekstrarvanda hans. Það má vel vera að um sé að ræða raunverulegan söknuð af þinni hálfu en hann kemur skringilega fyrir sjónir ef horft er til þess sem á undan er gengið. Árið 2016 skrifuðu 85 þúsund Íslendingar undir áskorun á stjórnvöld að auka hluta vergrar landsframleiðslu sem varið er til heilbrigðisþjónustu og tjáðu á þann hátt þann vilja sinn að betur yrði hlúð að þeim sem eru meiddir og lasnir í okkar samfélagi. Nú þremur árum síðar eyðum við ívið minni hluta af vergu landsframleiðslunni í heilbrigðismál en við gerðum árið 2016. Í þessu felst hluti af vanda Landspítalans. Þjóðin hefur ákveðna skoðun á heilbrigðiskerfinu og hefur til þess væntingar sem ríma engan vegin við þau fjárlög sem Alþingi hefur samþykkt á undanförnum árum. Undirskriftasöfnunin hefði átt að vera þér Bjarni, sem fjármálaráðherra, full ástæða til þess að hefja umræðuna djúpu um Landspítalann í stað þess að halda áfram að standa fyrir því að honum var skammtað fé langt undir þörfum þannig að hann hlaut að skila tapi. Svo ertu pirraður á því að skýringin á tapi spítalans í hittiðfyrra hafi verið ein, í fyrra önnur og í ár sú þriðja. Í fyrsta lagi þá skarast skýringarnar þrjár töluvert og síðan hitt að dýpsta holan eitt árið er líklegust til þess að fá athygli það næsta, sem gerir það að verkum að það er hola allt annars staðar sem verður dýpst það árið. Og svo byrjarðu í viðtalinu að dansa við þá skoðun að heilbrigðisþjónustan sé betur sett í höndum einkarekstrar en ríkisins og gerir það undir tónlist sem er rammfölsk. Þú segir að ef þjónustan væri rekin af einkaframtakinu hlyti fólk að hafa í höndunum kort sem segði hvað það eigi rétt á. Það er enginn vandi að setja saman þannig kort fyrir fólkið í landinu sem lýsir því sem það á rétt á frá ríkisreknu heilbrigðiskerfi. Það má meira að segja leiða að því rök að hluti af því sem stæði á slíku korti sé skilgreindur í lögum. Þegar viðtalið við þig er lesið ofan í kjölinn lítur út fyrir að þú hafir farið í það til þess eins að tala fyrir þeirri skoðun að einkarekin heilbrigðisþjónusta sé betri en sú ríkisrekna, eins og sjáist best á rekstrarvanda Landspítalans og biðlistum hans. Það er nákvæmlega ekkert að því að þú tjáir þá skoðun ef hún er raunverulega þín og það eru ýmsir í íslensku samfélagi sem deila henni með þér þótt mikill meiri hluti þjóðarinnar aðhyllist ríkisrekið heilbrigðskerfi. Mín skoðun er sú að það eigi að vera eitt heilbrigðiskerfi í landinu sem er öllum aðgengilegt og fjármagnað alfarið af skattfé og það eigi að vera að mestu ríkisrekið þótt það megi svo sannarlega vera pláss fyrir einkareknar einingar innan þess að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Nú skulum við reyna að dýpka þessa umræðu og skoða nokkur af þessum skilyrðum:

Þú gætir haft áhuga á þessum

KLÍNÍKIN Í ÁRMÚLA VILL 1200 HUNDRUÐ ÞÚSUND KRÓNUR FYRIR LIÐSKIPTAAÐGERÐIR EN LANDSPÍTALINN FÆR EINA MILLJÓN.

1. Einkareknu einingarnar mega ekki vera utan heilbrigðiskerfisins heldur skilgreindar sem hlutar þess og sem slíkar verða að leggja að mörkum til útfærslu á heildarstefnu í heilbrigðismálum, sem Svandís hefur látið færa í lög. Þær verða til dæmis að vera hluti af verkferlum kerfisins þannig að ákvarðanir um það hvort að það eigi að framkvæma aðgerð á sjúklingi séu teknar á sömu forsendum og í opinbera kerfinu og oftast af sömu aðilum. Það má til dæmis sjá fyrir sér að Landspítalinn kaupi þjónustu af Klíníkinni í Ármúla til þess að stytta biðlista fyrir liðskipti.

2. Kostnaður af einkareknu þjónustunni má ekki vera hærri en af þeirri ríkisreknu. Þetta skilyrði gæti reynst erfitt vegna þess að þeir sem eiga einkafyrirtækin vilja arð af fjárfestingum sínum. Í þessu samhengi vil ég benda á að Sjúkratryggingar hafa greitt hærra verð fyrir augnsteinaaðgerðir framkvæmdar á einkastofum heldur en þær á Landspítalanum og Klíníkin í Ármúla vill 1200 hundruð þúsund krónur fyrir liðskiptaaðgerðir en Landspítalinn fær eina milljón fyrir þær þegar þær eru gerðar í biðlistaátaki. Þess ber að geta að hvorki einkastofur augnlækna né Klíníkin búa yfir aðstöðu til þess að sjá um sjúklingana ef eitthvað fer úrskeiðis heldur eru þeir fluttir á Landspítalann til aðhlynningar. Það er sem sagt opinbera heilbrigðiskerfið sem fjármagnar öryggisnetið fyrir þennan einkarekstur. Þess vegna væri eðlilegt að Klíníkin fengi töluvert minna en eina milljón fyrir liðskiptin. Bjarni þetta er ástæða þess að þú sem fjármálaráðherra sem er nískur á fé til heilbrigðismála ættir að vera heldur á móti einkavæðingunni nema guð má vita hvað.

Fyrir vikið verður til óþarfa kostnaður fyrir kerfið og þjáning fyrir börnin.

3. Einkareksturinn verður að lúta gæðaeftirliti heilbrigðiskerfisins á sama máta og ríkisreknu einingarnar. Með þessum orðum er ég alls ekki að halda því fram að einkareknu einingarnar þurfi meira á því að halda en þær ríkisreknu. Þess ber þó að geta að við höfum dæmi um það hvernig einkareksturinn getur farið úr böndum. Eitt af þeim er að það eru teknir hálskirtlar úr tvisvar til þrisvar sinnum fleiri börnum á Íslandi en í nágrannalöndum okkar og þeir eru nær allir teknir á einkastofum úti í bæ. Fyrir vikið verður til óþarfa kostnaður fyrir kerfið og þjáning fyrir börnin.

4. Sú læknisþjónusta sem er innt af hendi í einkarekstri verður að leggja af mörkum til menntunar heilbrigðisstarfsfólks vegna þess að til hennar verður að nýta mjög stóran hundraðshluta af öllu sem til fellur í heilbrigðiskerfinu.

Bjarni, Landspítalinn hefur oft skilað tapi vegna þess að honum hefur ekki verið ætlað nægilegt fjármagn og það sem meira er, hann hefur skilað tapi þótt hann hafi skorið þjónustuna þannig við nögl að hún samrýmist varla þeim kröfum sem gerðar eru til nútíma læknisfræði. Auðvitað má hagræða rekstrinum þannig að fé nýtist ívið betur, en rót vandans er skortur á vilja löggjafans til þess að fara að vilja þjóðarinnar og fjármagna hann þannig að hann geti staðið undir væntingum. Það er fráleitt að halda því fram að lausnin liggi í því að fjárfesta í aðstöðu til þess að sinna verkefnum spítalans úti í bæ og borga síðan fyrir þau mun hærra verð en kostnaðinn á Landspítalanum. Ég hef þetta að segja um söguna sem þú tókst undir í viðtalinu í Viðskiptamogganum um þá vitleysu sem fælist í að Sjúkratryggingar borgi fyrir dýrar liðskiptaaðgerðir í Svíþjóð en ekki ódýrar á Klíníkinni. Þetta er flókið vegna þess að aðgerðirnar á Klíníkinni eru dýrari en þær sem eru framkvæmdar á Landspítalanum og er þar ekki meðtalinn kostnaðurinn af öryggisnetinu sem Klíníkin dembir á Landspítalann. Þá vaknar spurningin hvers vegna Landspítalinn geri ekki þessar aðgerðir í kvelli í stað þess að láta myndast biðlista. Staðreyndin er sú að Landspítalinn fær ákveðna upphæð á fjárlögum og ef hann gerði mikinn fjölda liðskipta núna yrði að taka peninga af annarri grundvallarþjónustu sem spítalinn á að sinna lögum samkvæmt. Ef Svíþjóð eða Klíníkin gera svona aðgerðir er peningurinn tekinn úr allt öðrum sjóði. Skynsamlega leiðin til þess að leysa liðskiptaáþján þjóðarinnar væri að veita sérstöku fé til Landspítalans til þess að leysa þennan vanda. Landspítalinn gæti þá annað hvort gert aðgerðirnar sjálfur eða falið Klíníkinni að sinna þeim alfarið eða að hluta á því verði sem samræmist kostnaði á spítalanum.

Með þessu ertu að halda andstæðingum Sjálfstæðisflokksins veislu.

Bjarni, þjóðin vill betra heilbrigðiskerfi og er reiðubúin til þess að eyða í það mun stærri hundraðshluta af þjóðartekjum en gert hefur verið upp á síðkastið. Ég hef það á tilfinningunni að þú sért mér sammála um flest af því sem ég hef skrifað hér að ofan en þú ert með einhvers konar skatta- og veiðigjaldalækkunaráráttu sem gerir þér erfitt um vik að viðurkenna það og er að smækka flokkinn þinn niður úr öllu valdi. Með þessu ertu að halda andstæðingum Sjálfstæðisflokksins veislu. Kannski þú sért kominn með leið á pólitísku brölti og lítir svo á að auðveldasta leiðin út úr því sé að Sjálfstæðisflokkurinn hverfi bara fyrir fullt og allt.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: