Ofmetur Styrmir styrk Framsóknar?
Hefur Sigurður Ingi og Framsókn næga vigt til að slá afgreiðslu þriðja orkupakkans á frest?
Styrmir Gunnarsson er meðal þeirra sem velta fyrir sér nýjasta útspili formanns Framsóknar:
„Líklegt má telja, í ljósi orða hans sjálfs að innan þings muni Framsókn leggja áherzlu á að þingið flýti sér hægt. Sigurður Ingi segir að þeim tíma sé vel varið, sem fari í að leita sátta og einingar. Hann segir líka að þingmenn eigi að hlusta á raddir fólksins í landinu,“ skrifar Styrmir á styrmir.is.
Ólíkleg er að Framsókn stöðvi Sjálfstæðisflokkinn í máli þriðja orkupakkans. Styrmir, sem er harður andstæðingur pakkans, telur það þó ekki vonlaust:
„Þetta getur í fyrsta lagi þýtt að Framsóknarmenn muni beita áhrifum sínum til þess að málið verði ekki keyrt í gegnum þingið á þeim hraða, sem fyrstu upplýsingar af sameiginlegum fundi þingflokks stjórnarflokkanna í Ráðherrabústaðnum fyrir nokkrum vikum bentu til að stefnt væri að. Í öðru lagi gæti þetta bent til þess að Framsóknarmenn mundu reyna að fá málinu frestað fram á haustið,“ skrifar Styrmir.
Þingmenn Framsóknar hafa haldið sig til hlés í málinu. Er von til þess að þeir látið málið til sín taka, að þeir skríði úr skjólinu:
„Nú munu allra augu beinast að þingmönnum Framsóknarflokksins og hvað þeir segja og gera og segja ekki og gera ekki. Það skiptir máli fyrir þann flokk í þeirri baráttu, um fylgi ákveðins hóps kjósenda, sem þeir eiga í við Miðflokkinn,“ er mat Styrmis.
„Og þetta pólitíska frumkvæði Sigurðar Inga vekur vonir hjá andstæðingum þessa máls um að stjórnarflokkarnir sjái að sér,“ skrifar hann.
Nú er að bíða og sjá. Mun Framsókn taka þátt í umræðunni um þriðja orkupakkann? Og ef svo verður mun flokkur hafa næga vigt til að reka samstarfsflokkana til baka? Eða mun flokkurinn kjósa enn að liggja í leyni?