„Stjórnarþingmenn segja að lítið nýtt sé að frétta af viðræðum formannanna. Þar ríki enn ágreiningur um ýmis vel þekkt deiluefni flokkanna, svo sem rammaáætlun, friðlýsingar og hálendisþjóðgarð, en einnig voru flóttamannamál nefnd til sögunnar. „Þetta eru mál sem þarf að leysa og er ekki hægt að ýta á undan sér,“ sagði einn sjálfstæðismanna. „Það eru svona mál sem sprengja ríkisstjórnir ef menn semja ekki um þau fyrir fram.““
Þetta segir í forsíðufrétt Moggans.
Loks lét einhver blaðamaður verða að því að hringja og hringja til að geta sagt okkur hvað sé í raun að gerast á fundum formanna flokkanna þriggja.
Af þessu sést að Katrín Jakobsdóttir teflir við tvíhöfðana, Bjarna Ben og Sigurð Inga. Þeirra flokkar virðast ganga í takt. Í einu og öllu. Vandinn eru Vinstri græn.
Meira úr frétt Moggans:
„Þingmaður Vinstri grænna tók í sama streng, en sagði að þótt þetta væru erfið mál, þá væru þau komin á góðan rekspöl og engin ástæða til þess að ætla annað en að formennirnir næðu málamiðlun um þau.“
Svo kemur stunganí Moggafréttinni: „Hins vegar séu uppi ráðagerðir um ýmsar kerfisbreytingar, sem m.a. hafi í för með sér bætta nýtingu fjármuna ríkisins þar sem þeirra er helst þörf.“
Þarna er eflaust átt við að herða þurfi sultarólarnar, svo sem á Landspítala, hjá öryrkjum, í menntamálum og svo framvegis. Boðuð verður aukin harka. Gegn hverjum? Það skýrist.
Hversu langt geta Bjarni og Sigurður Ingi teymt Vg? Lengra en í síðustu ríkisstjórn? Já, ef Katrín heldur forsætisráðuneytinu.