Hringbraut.is: Í liðinni viku birtist deila í fjölmiðlum milli Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, formanns borgarráðs og Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa um það hve mikið Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn er klofinn. Þórdís Lóa heldur því fram að borgarfulltrúahópurinn sé margklofinn en Hildur telur hann ekkert mikið klofinn.
Hildur skipar annað sætið á D-lista í borgarstjórn en Eyþór Arnalds leiðir listann. Engum dylst að ekki er samstaða milli þeirra. Hildur, Katrín Atladóttir og Valgerður Sigurðardóttir fara sínar eigin leiðir í borgarstjórnarflokknum og lúta helst ekki leiðsögn Eyþórs. Þá fer Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi flokksins gjarnan sínar eigin leiðir. Staðan er því heldur flókin og stundum vandræðaleg.
En færri vita að bæði Eyþór Arnalds og Hildur Björnsdóttir vilja komast á Alþingi og eru sögð undirbúa þátttöku í prófkjöri næst.
Það gæti orðið fróðlegur slagur því fyrir eru fimm þingmenn sem allir vilja halda áfram þingsetu. Flokkurinn þarf að halda vel á spöðunum til að verja þessi fimm þingsæti. Það er alls ekki öruggt.
Gera má ráð fyrir að Guðlaugur Þór Þórðarson sé öruggur með efsta sætið í prófkjöri. En svo gæti orðið hörð barátta um hin þrjú til fjögur öruggu þingsætin í prófkjörinu. Þar kæmu þau Eyþór og Hildur sterk inn, ásamt núverandi þingmönnum þeim Sigríði Andersen, Brynjari Níelssyni, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og Birgi Ármannssyni. Einnig er líklegt að varaþingmenn, eins og Albert Guðmundsson fyrrverandi formaður Heimdallar, freisti þess að ná þingsæti.
Það gæti því orðið mikil barátta í næsta prófkjöri. Nái Eyþór og Hildur kjöri verður fróðlegt að fylgjast með samstarfi þeirra á þingi, hvort klofningurinn úr borginni færist með þeim inn á Alþingi eða ekki.