- Advertisement -

Hversu alvarleg er staða forráðamanna Samherja í raun og veru?

Málið er að Jóhannes nýtur lagaverndar í Namibíu. Sem Samherjamenn gera ekki.

Marinó G. Njálsson skrifar:

Ég held að það sé full ástæða fyrir þá til að skoða þær sviðsmyndir sem þeir standa frammi fyrir. Sú líklegasta er að namibíska spillingarlögreglan muni ákæra í málinu og ákærur nái til æðstu stjórnenda fyrirtækisins. Ástæðan fyrir því að mér finnst þetta líklegasta niðurstaðan er að tveir ráðherrar hafa sagt af sér í Namibíu og líklegt er að þar verði málunum fylgt eftir. Mynd tvö er að hugsanlega ná ákærurnar „bara“ til næsta lags fyrir neðan, þ.e. þeirra sem sáu um millifærslur á mútugreiðslunum eða samþykktu þær. Þriðji möguleikinn er að namibísk stjórnvöld treysti íslensku ákæruvaldi og dómstólum fyrir að ákæra og útdeilda refsingu. Fjórði möguleikinn er að ekkert gerist og það er örugglega það sem Samherjamenn vona, en það þykir mér langsóttur möguleiki.

Eftir að hafa hlustað á Þórdísi Ingadóttur, sérfræðing í alþjóðlegum refsirétti og dósent við HR, í Kastljósi kvöldsins, þá finnst mér fyrsta sviðsmyndin líklegust, þ.e. ákærur verði gefnar út í Namibíu gegn æðstu stjórnendum og jafnvel fleiri aðilum. Er það byggt á ummælum hennar um samning Sameinuðu þjóðanna, sem bæði Ísland og Namibía eru aðilar að og ákærur í slíkum málum geti náð til einstaklinga hvar sem er í heiminum án tillits til landamæra. Í framhaldi af því verði gefin út alþjóðleg handtökuskipun á hendur þeim sem verða ákærðir og samhliða farið fram á framsal frá Íslandi. Geri ég ekki ráð fyrir að þeim sé efst í huga að fara sjálfviljugir til Namibíu til að standa reikningsskil gjörða sinna og þess síður að íslensk stjórnvöld framselji þá. Það gæti hins vegar orðið þvinguð staða. Má búast við að það yrði heldur erfitt fyrir Þorstein Má að reka alþjóðlegt útgerðarfyrirtæki og eiga í alþjóðlegu samstarfi, ef hann gæti ekki ferðast á milli landa.

Veit ég ekki hve margir myndu vilja eiga í viðskiptum við Samherja undir þeim formerkjum.

„Sorry, our boss cannot travel to meet you because there is an international warrent for his arrest and he might get arrested if he leaves Iceland!“

Veit ég ekki hve margir myndu vilja eiga í viðskiptum við Samherja undir þeim formerkjum. Þorsteinn gæti því einfaldlega verið neyddur til að fara til Namibíu, sitja þar réttarhöld og fá þann dóm sem þar yrði kveðinn upp. Vona síðan að hann fengju leyfi til að sitja af sér mögulegan fangelsisdóm á Íslandi eða á einhverjum flottum búgarði í Namibíu fyrir forréttindafanga.

Næsti kostur er þá, að rannsókn fari fram á Íslandi, réttað yfir mönnum hér og, miðað við minn skilning á því sem Þórdís sagði, að einhverju leyti á forsendum þeirrar ákæru sem gefin væri út í Namibíu, auk líklegrar ákæru vegna brota gegn íslenskum lögum. Refsirammi íslenskra laga myndi gilda. Hættan er hins vegar sú, að namibísk stjórnvöld myndu ekki sætta sig við niðurstöðu íslenskra dómstóla, sérstaklega ef um málamyndadóm væri að ræða eða sýknun og myndu endurnýja alþjóðlegu handtökuskipunina.

Samherji reyndi að skella skuldinni á Jóhannes Stefánsson í fyrstu viðbrögðum fyrirtækisins við Kveikþættinum. Málið er að Jóhannes nýtur lagaverndar í Namibíu. Sem Samherjamenn gera ekki. Það er því nánast öruggt, að gefin verður út ákæra á einhverja starfsmenn Samherja í Namibíu og tel líklegast að henni verði beint að toppum fyrirtækisins. Þorsteinn Már og hans nánustu menn í þessu máli eru því komnir með bakið upp að veggnum, a.m.k. miðað við útlistun Þórdísar á ákvæðum samnings SÞ. Það er hvergi skjól í heiminum fyrir þá sem borið hafa mútur á menn og alveg örugglega ekki þegar um opinbera embættismenn er að ræða. Ákæra í Namibíu er jafn alvarleg fyrir þá og ákæra á Íslandi. Sætti yfirvöld í Namibíu sig ekki við úrlausn mála á Íslandi, þá halda þau einfaldlega alþjóðlegu handtökubeiðninni við og Þorsteinn getur ekkert ferðast. Fyrir Samherja og Þorstein er því best að gangast við verknaðinum, biðjast afsökunar, greiða bætur og vonast eftir vægum dómum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: