Stjórnmál

Hvers vegna var ekki brugðist við varnaðarorðunum fyrir fjórum vikum?

By Miðjan

April 25, 2021

„Klukkuna vantar tíu mínútur í þrjú aðfaranótt fimmtudags. Það er ekki að vanda til verka,“ sagði Helga Vala Helgadóttir sem var meðal þeirra þingmanna sem töluðu á hinum sérstaka næturfundi Alþingis um sóttvarnarlögin.

„Sóttvarnalæknir kom ekki að gerð frumvarpsins. Ekki var leitað til hans með ráðleggingar varðandi útfærslu. Þá voru engar skýringar veittar á því hvers vegna svo var ekki aðrar en þær að við stæðum betur en við hefðum gert. Þegar við spurðum sóttvarnalækni og landlækni að því hvort þetta væri rétt, hvort þessi bylgja væri eitthvað betri en önnur bylgjan, hvort fólk veiktist minna núna og hvort þessi afbrigði væru eitthvað vægari og betri við okkur, sögðu þau einfaldlega: Nei, það er ekki svo. Yngra fólkið veikist meira núna. Þessi afbrigði eru meira smitandi, bráðsmitandi, og þess vegna þarf að girða frekar fyrir þann leka sem verið hefur á landamærunum. En þá ætla stjórnvöld að miða við einhver hááhættusvæði, en þó bara til hliðsjónar miðað við nýjustu útgáfu. Þetta eru bara tölur. Ekki skal taka blaðamannafund ríkisstjórnar í Hörpu í vikunni alvarlega af því að þetta eru bara tölur sem miða á við en ekki fara eftir. Þegar spurt var hvort tryggt væri að fólk færi ekki frá einu landi til annars til að fljúga heim frá öruggu ríki ef það byggi í óöruggu ríki, hááhætturíki, var okkur líka tjáð að ekki væri hægt að tryggja það, því miður. Evrópa væri ekki þannig. Þar er bæði hægt að keyra yfir landamæri og taka lest. Við erum því auðvitað með þannig ástand að við þurfum að bregðast hratt og örugglega við með fullnægjandi lagaheimildum,“ sagði Helga Vala.

„Það er svolítið skrýtið að eftir allt sem á undan er gengið, eftir að hafa verið rekin til baka með reglugerð sem hafði ekki fullnægjandi lagastoð, stöndum við hér um miðja nótt með þessa ófullnægjandi útkomu, með þessi óboðlegu vinnubrögð. Ég verð að segja að það er ekki beint til að auka traust á þeim störfum sem hér fara fram að þessu sé leyft að fara svona. Ég átta mig ekki á nauðsyn þess að við séum hér um miðja nótt að gera þetta. Hvers vegna var ekki byrjað fyrr? Hvers vegna var ekki brugðist við varnaðarorðunum fyrir fjórum vikum? Hvers vegna var ekki brugðist við þegar niðurstaða héraðsdóms og Landsréttar lá fyrir fyrir tveimur vikum? Hvers vegna var fyrst brugðist við eftir að Samfylkingin hafði lagt fram frumvarp þess efnis að skjóta lagastoð undir nauðsynlegar aðgerðir sem sóttvarnalæknir hafði kallað eftir? Hvers vegna var það fyrst þá að heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin fann hjá sér kjarkinn til að reyna að koma fram með eitthvað í líkingu við það sem kallað hafði verið eftir vikum saman, þannig að við fengjum engan tíma til að vinna það, þannig að fimm nefndarritarar hafa setið hér með okkur í alla nótt að reyna að átta sig á því hvernig útkoman eigi að vera þannig að meiri hlutanum líki vel við, þannig að við séum hér að halda ræður klukkan þrjú og alla langi að fara heim af því að allir eru löngu búnir að missa einbeitinguna?“