„Ríkisstjórnin setti aftur á krónu á móti krónu skerðingar. Hvers vegna? Bara til að geta skattað og skert verst settu ellilífeyrisþegana í sárafátækt, svo þeir eigi enn síður fyrir mat eða lyfjum,“ skrifar Guðmundur Ingi Kristinsson í Moggann.
„Það var sagt fyrir síðustu kosningar að nú væri tími þeirra verst settu í okkar samfélagi kominn, þessir hópar gætu ekki beðið lengur. En þeir bíða enn. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur byggt upp þetta ömurlega almannatryggingakerfi og viðhaldið því með auknum skerðingum, sett inn þúsund krónur í keðjuverkandi skerðingakerfið sem renna í gegnum vasa öryrkja og eldra fólks og beint aftur í ríkissjóð. Það eina sem er eftir eru smáaurar í vasa þeirra verst settu ef það fólk er svo heppið,“ skrifar Guðmundur Ingi.
Næst segir hann: „Heilbrigðiskerfið er á ystu nöf, biðlistar lengjast, mönnunarvandi og kulnun í starfi er að verða stórt vandamál og þá hefur ekki enn verið samið við sjúkraþjálfara og talmeinafræðinga. Þá skora læknar einnig á stjórnvöld að standa við nauðsynlegar aðgerðir og úrbætur í heilbrigðiskerfinu. Þá eru hjúkrunarheimilin einnig komin á ystu nöf vegna fjárskorts og áhyggjulaust ævikvöld fjarlægur draumur.“