„Hvernig getur það gerst árið 2018 á vakt Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að kvennastétt með 6 ára háskólanám að baki sé að hverfa frá starfi?“
Þetta segir meðal annars í grein sem Ebba Margrét Magnúsdóttir, fæðingarlæknir og formaður læknaráðs Landspítalans, skrifar í Fréttablaðið í dag.
„Þessi ríkisstjórn setti heilbrigðismál og innviði í öndvegi. Það er afgangur af ríkissjóði og verið að greiða niður erlendar skuldir. Ég skora á fjármálaráðherra að gefa samninganefnd ríkisins heimild til að semja við ljósmæður og það strax. Sumarið er fram undan og þá er álag á fæðingardeild LSH mikið vegna sumarfría starfsfólks og vegna þess að nágrannasjúkrahúsin draga oft úr sinni starfsemi. En fæðingum fækkar ekki þó að sólin fari að skína og ekki setjum við tappa í konurnar. Við förum í hanskana og tökum glöð á móti nýjum Íslendingum,“ skrifar Ebba Margrét.