Allt kraftmiklir menn en fastir í gömlum hugmyndum um hlutverk verkalýðshreyfingarinnar.
Katrín Baldursdóttir skrifar:
Verja þetta og verja hitt! Verja heimilin, verja kaupmáttinn og verja kjörin. Hvers vegna í ósköpunum þarf verkalýðshreyfingin alltaf að vera í vörn? Hvers vegna í ósköpunum fer hún ekki í sókn? Nú eru einmitt sóknarfæri. Hreyfing með hátt í 200 þúsund manns á bak við sig á ekki að þurfa að fara í vörn. Auk þess er verkalýðshreyfingin mjög rík. Hjá sumum félögum eru allar kistur fullar af peningum. Ætlar hreyfingin að sitja á þessum peningum eins og ormur á gulli? Af hverju er nú ekki farið í stórátak við að starta alls konar sjálfbærum nýsköpunarverkefnum á hinum ýmsu sviðum sem skapa störf. Þarna geta félögin starfað saman eða í sitthvoru lagi að því að skapa félagsmönnum sínum atvinnu. Af hverju er ekki stutt við launafólk svo það geti stofnað samvinnufélög um alls kyns verslun, þjónustu og fleira þar sem starfsfólkið fer með stjórnina og hugsanlega í samvinnu við stéttarfélögin. Þar getur starfsfólkið ákveðið sjálft verðlag, kaup og kjör og verið áfram félagsmenn í stéttarfélögunum og stutt við þau á ýmsan hátt. Þá þarf ekkert að vera að verja kjörin heldur sótt fram um að skapa fólki umgjörð svo það geti lifað mannsæmandi lífi. Á sama hátt er hægt að stofna húsnæðissamvinnufélög launafólks í stéttarfélögunum.
Ég var að hlusta í kvöld á Samstöðina og við Rauða borðið hjá Gunnari Smára sátu þeir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness og Aðalsteinn Baldursson formaður Framsýnar á Húsavík. Allt kraftmiklir menn en fastir í gömlum hugmyndum um hlutverk verkalýðshreyfingarinnar. Alltaf sama Mantran! Verja kaupmáttinn, verja heimilin, verja kjörin, verja heimilin, verja kaupmáttinn, verja kjörin. Mér finnst að verkalýðshreyfingin ætti að breyta Möntrunni frá vörn yfir í sókn.