Sigurjón Þórðarson skrifar:
Það er ljóst að þeir þingmenn sem hafa barist hve harðast fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar fá ekki brautargengi í forvölum Vg.
Það þarf ekki að koma neinum á óvart þar sem það er ekki almenn stemning innan Vg fyrir einkavinavæðingu Bjarna Ben eða hvað þá Samherjastefnu Kristjáns Þórs sem ríkisstjórnin rekur í sjávarútvegi og sama má segja um þá stefnu sem ríkisstjórnin rekur orku- og vegamálum. Í orkumálum er greinilega stefnt í átt til einkavæðingar og aukinnar gjaldtöku í vegakerfinu sem mun leggjast með meiri þunga á starfsmenn Verkalýðsfélags Akraness en forstjóra í kauphöllinni og varla verður að búast við því að ökuþór Alþingis, Ásmundur Friðriksson muni leggja mikið í vegapúkkið úr eigin vasa.
Sú spurning hlýtur að vakna hvers vegna Vg er í þessari ríkisstjórn er það til að svala persónulegum metnaði forsætisráðherra, en allt útlit er fyrir velflestir þingmenn flokksins aðrir en hún sjálf þurfi að líða fyrir.
Er það ekki bara hjá Katrínu Jakobsdóttur – sleppa sjálf og láta aðra blæða?