- Advertisement -

„Hvers vegna ekki að kjósa núna strax?“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir:

Kjósendur treysta augljóslega ekki ríkisstjórninni til að takast á við verðbólguna sem þessi ríkisstjórn hefur leyft að grassera í að verða heilt kjörtímabil.

Fyrir síðustu kosningar skrifaði hæstvirtur forsætisráðherra grein þar sem fram kom, með leyfi forseta:

„Það skiptir öllu hvort eftir kosningar taki við sundurlaus samtíningur margra flokka eða öflug ríkisstjórn sem getur tekist á við stór verkefni og hefur burði til að leysa áskoranir til framtíðar.”

Í sömu grein sagði ráðherrann að verði Sjálfstæðisflokkurinn ekki við völd muni verðbólgan fara úr öllu valdi og afborganir á húsnæðislánum stóraukast. Eflaust hefur kjósendur Sjálfstæðisflokksins ekki grunað að ráðherrann færi með öfugmæli og að við tæki sundurlaus samtíningur margra flokka, Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG, þar sem verðbólga færi upp úr öllu valdi og húsnæðislánin líka.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Til hvers að kjósa í vor? Að þessu spurði hæstvirtur forsætisráðherra um daginn þegar vantraustsyfirlýsing VG í garð stjórnarsamstarfsins var borin undir hann. Þá sagði hæstvirtur forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Ég er með frekar einfalda sýn á þetta. Hún er sú að við höfum skyldu til þess að vinna að framgangi okkar mála, sem stjórnin hefur komið sér saman um. […] Hitt er miklu meiri spurning, hvort að ríkisstjórn hefur burði til þess að klára verkefnin sín og vinna í þágu þjóðarinnar.“

Nefndi ráðherrann í því samhengi að framgangur í efnahagsmálum, útlendingamálum og orkumálum ætti að ráða úrslitum um það hvenær kosið er.

Þjóðin setur hvorki útlendinga né orkumál í forgang. Það er skýrt í öllum könnunum þar sem kjósendur eru beðnir um að forgangsraða málaflokkum. Þeir treysta augljóslega ekki ríkisstjórninni til að takast á við verðbólguna sem þessi ríkisstjórn hefur leyft að grassera í að verða heilt kjörtímabil. VG hefur sagt: Hingað og ekki lengra, þegar kemur að útlendingamálum og varaformaður flokksins og hæstvirtur utanríkisráðherra lýstu því yfir að ríkisstjórnin komist ekkert áfram í orkumálum vegna samstarfsflokkanna. Ég spyr því eins og hæstvirtur forsætisráðherra: Hvers vegna að kjósa í vor? Hvers vegna ekki að kjósa núna strax?“

Bjarni Benediktsson:

Það sem er merkilegt við þetta tímabil er að Ísland sker sig úr í hópi þjóða þegar horft er á það hvernig stjórninni hefur tekist að verja heimilin við þessar sömu aðstæður.

„Sundurlaus samtíningur fólks er nú það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég hugsa um Pírata,“ sagði Bjarni forsætis í upphafi svars síns.

„En þessi ríkisstjórn hefur auðvitað fengið gríðarlega stór verkefni til að fást við og fyrir síðustu kosningar voru þau verkefni ekki öll fyrirséð, alls ekki öll fyrirséð. Henni hefur hins vegar tekist mjög vel að takast á við miklar efnahagssveiflur og það er hárrétt hjá háttvirtrum þingmanni að verðbólga hefur hér á landi verið allt of há en það er að breytast,“ sagði Bjarni og hélt áfram.

„Síðast í morgun sáum við frá greiningardeild Landsbankans spá um að strax í janúar verði verðbólgan komin undir 5% og haldi áfram að lækka á þessu ári og vextir geti haldið áfram að lækka. Það gerist ekki nema vegna þess að það hefur verið brugðist við, sem ríkisstjórnin hefur gert. Við höfum skilað stórbættri afkomu og raunvaxtastig Seðlabankans er að vinna niður vandann. Það sem er merkilegt við þetta tímabil er að Ísland sker sig úr í hópi þjóða þegar horft er á það hvernig stjórninni hefur tekist að verja heimilin við þessar sömu aðstæður, vegna þess að hér á landi hefur kaupmáttur heimilanna, að teknu tilliti til vaxtanna, vaxið 11 ár í röð.

Obboboob, kynni einhver að segja eftir þennan lestur. Æ fleira fólk nær ekki endum saman. Það sést hvernig fjölgað hefur hjá umboðsmanni skuldara og okurlánafyrirtækjum.

Næst talaði Bjarni Ben um eigið ágæt, sem margt fólk kemur ekki auga á. Gefum Bjarna orðið:

„Hér hefur líka verið meiri hagvöxtur og fleiri störf orðið til, þess vegna hafa margir flutt til landsins, þannig að ríkisstjórninni hefur sannarlega tekist vel að takast á við risavaxin verkefni. En það getur alveg gerst að tímarnir breytist og á kjörtímabilinu koma upp nýjar áskoranir og ég stend við það sem ég segi að það er grundvallaratriði fyrir okkur Íslendinga að hafa stjórn á landamærunum, að í útlendingamálum þurfi að auka skilvirkni stjórnkerfisins, að við þurfum áfram að ná niður vöxtunum og ég hafna þeirri fullyrðingu háttvirts þingmanns að Íslendingar skilji ekki mikilvægi þess að sækja frekari græna orku til þess að stækka vinnumarkaðinn, auka framleiðnina og látum ekki hjá liggja að nefna orkuskipti.“

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: